Otto Warmbier látinn

19.06.2017 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: vimeo
Otto Warmbier, rúmlega tvítugur bandarískur karlmaður, sem var fluttur heim til Bandaríkjanna frá Norður-Kóreu í síðustu viku, eftir að hafa verið þar í haldi í rúmt ár, er látinn. Hann varð fyrir alvarlegum heilaskaða á meðan hann var í haldi .

Warmbier var í fyrravor dæmdur til 15 ára þrælkunarvinnu í Norður-Kóreu fyrir að hafa stolið skilti í höfuðborg landsins. Hann er 22ja ára og var í námsferð í landinu. Eftir að dómur var kveðinn upp heyrðist ekki meira frá Warmbier fyrr en hann var skyndilega fluttur heim til Bandaríkjanna í dái á miðvikudag í síðustu viku. 

Norður-kóresk stjórnvöld halda því fram að Warbier hafi veikst af bótúlíneitrun sem er sjaldgæf og alvarleg og má oftast rekja til mengaðrar fæðu eða sýkingar í gegnum sár og getur leitt til dauða. Þetta hafi gerst fljótlega eftir dómsuppkvaðningu og hann hafi því verið í dái í meira en ár. 

Warmbier lést í faðmi fjölskyldu sinnar á sjúkrahúsi í heimabæ sínum Cincinnati í Ohio laust fyrir klukkan hálf sjö í kvöld að íslenskum tíma. Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að þær pyntingar sem hann mátti þola í Norður-Kóreu hafi tryggt að engin önnur niðurstaða en dauði var möguleg. 

Læknar Warmbier segja að hann hafi ekki verið með neina líkamlega áverka. Ekki hafi verið hægt að skera endanlega úr um hvað olli heilaskaða hans. Engin ummerki hefðu fundist um að hann hefði fengið bótútíneitrun. Miðað við aldur hans megi leiða líkur að því að heilaskaði hans hafi orsakast af hjartastoppi sem hefði stöðvað blóðflæði til heilans. 

Donald Trump forseti Bandaríkjanna vottaði fjölskyldu Warmbiers samúðarkveðjur í kvöld. „Melania og ég vottum fjölskyldu Otto Warmbier innilegrar samúðar vegna skyndilegs fráfalls hans. Ekkert er meira átakanlegt fyrir foreldri en að missa barn í blóma lífsins. Hugsanir okkar og bænir eru hjá fjölskyldu Ottos og vinum, og öllum sem þótti vænt um hann.“

Bandaríkjaforseti segir að tíðindin styrki bandarísk stjórnvöld í þeim ásetningi sínum að koma í veg fyrir að saklaust fólk verði fyrir slíkri meðferð af hálfu stjórnvalda sem virða hvorki hugmyndir réttarríkisins né grundvallar mannréttindi.   „Bandaríkin fordæma enn og aftur hrottaskap stjórnvalda í Norður Kóreu um leið og við syrgjum nýjasta fórnarlamb þess.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV