Óttinn „klýfur samfélag okkar og eitrar“

18.08.2017 - 19:57
Hulda Þórisdóttir, stjórnmálasálfræðingur, segir að hryðjuverk eigi að valda ótta en hættan sé að sá ótti kljúfi samfélagið og eitri. „Hann getur orðið til þess að við förum að óttast hina og verðum tilbúin að gefa upp mannréttindi - ekki bara þeirra sem eru grunaðir um hryðjuverk heldur líka okkar eigin.“

Hulda var í viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld. Þar sagði hún ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessum hryðjuverkum sem hafi átt sér stað í Evrópu undanfarin ár því þau hafi búið til þetta pólitíska ástand nú hafi orðið til. 

Hins vegar þyrftum við sem almennir borgarar ekki hafa miklar áhyggjur af því að verða fyrir hryðjuverkaárás. Hún tók sem dæmi að frá árinu 2015 hefðu 330 manns dáið í tólf árásum. „Bara í júlí í Frakklandi dóu 360 í bílslysum.“ Hún sagði ekkert óeðlilegt við þennan ótta. Hryðjuverkaárás væri skelfileg og tilfinningahlaðin viðburður sem færi beint í frumstæðari hluta heilans sem væri vanur að bregðast við ógn en væri ekkert sérstaklega rökfastur.

Hulda var í New York þegar árásin á Tvíburaturnana var gerð og bendir á að eftir þær hafi margir sleppt því að fljúga og kosið frekar að keyra. Sumir hagfræðingar hafi reiknað það út að þessi hegðun hafi leitt til þess að fleiri dóu í bílslysum en þeir sem dóu í árásinni sjálfri. 

Hulda segir að strax eftir árásina hafi George Bush yngri, þáverandi forseti, og Rudy Guliani, þáverandi borgarstjóri New York,  reynt að slá á ótta fólks. Bush hafi komið fram að forsvarsmönnum múslima og Guliani hafi ekki þreyst á því að segja fólki að vera ekki hrætt því þá hefðu hryðjuverkamennirnir unnið. „Hryðjuverk valda ótta og óttinn klýfur samfélag okkar og eitrar. Hann verður til þess að við förum að óttast hina og verðum tilbúin að gefa upp mannréttindi - ekki bara þeirra sem eru grunaðir um hryðjuverk heldur líka okkar eigin.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV