Óttast skaðleg áhrif hækkunar virðisaukaskatts

12.09.2017 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu getur skaðað greinina og dregið úr tekjum sem hún skilar til samfélagsins til lengri tíma litið. Þetta segir hótelstjóri Hótel Rangár. Samkeppnisumhverfi ferðaþjónustunnar sé erlendur markaður, og því rétt að miða skatta við greinina erlendis.

Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verður hækkaður í byrjun árs 2019, nái frumvarp Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra fram að ganga. Fjármálaráðherra segir að með því skapist jafnræði milli greina. Friðrik Pálsson, hótelstjóri á Hótel Rangá, segir þetta órökrétt í ljósi þess að samkeppnisumhverfi ferðaþjónustunnar sé erlendur markaður. 

„Okkar viðskiptavinir horfa mikið til þess hvort að greinin búi við samsvarandi skilyrði og annars staðar. Þau viðbrögð sem við höfum fengið alveg frá því að þessi hugmynd kom fyrst upp hafa verið mjög neikvæð,“ segir Friðrik.

En er ekki kominn tími til að ferðaþjónustan borgi meira til baka til samfélagsins? „Hún er að borga alveg gríðarlega mikið til baka til samfélagsins. Aðaatriðið er þetta, að með því að fara í óskynsamlegar aðgerðir eins og þessa, þá mun það draga úr því sem greinin í heild, til lengri tíma, mun skila til samfélagsins. Til skamms tíma má vel vera að það sé hægt að skattpína hana en til lengri tíma litið þá er þetta skaðleg ákvörðun vegna þess að við verðum ekki samkeppnishæf við kollega okkar erlendis, og það verðum við að vera ef við ætlum að halda langtímavexti í greininni.“