Óttast að staðan sé banabiti margra samfélaga

23.08.2017 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Ungur bóndi í Dalabyggð segir sauðfjárbændur kjaftstopp yfir þeirri stöðu sem nú blasi við, að afurðaverð lækki um 35 prósent í haust. Hann kallar eftir vel ígrundaðri byggðastefnu.

„Ég vil að þessi mál verði rædd á yfirvegaðan hátt. Það fer illa í fólk þegar talað er um hlutina eins og þeir eru ekki,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, sauðfjárbóndi í Ásgarði í Hvammssveit, varamaður í sveitarstjórn Dalabyggðar og formaður félags sauðfjárbænda í Dalasýslu.  Þar vísar hann meðal annars til orða Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, um að ekki komi til greina að setja meiri fjármuni til greinarinnar nema búvörusamningur verði endurskoðaður. „Almennt þá eru sauðfjárbændur kjaftstopp en birgja þetta inni frekar en að tala opinskátt um þetta. Hvaða atvinnugrein í landinu myndi sætta sig við 35 prósenta kjaraskerðingu á ári?,“ spyr hann.

Vandinn nú meiri en áður

Eyjólfur segir stöðuna grafalvarlega og tengda því að byggðastefnu vanti. Hann er ungur að árum og tók nýlega við búi foreldra sinna. „Ég held að þetta geti orðið banabiti margra samfélaga. Sauðfjárbændur hafa oft séð sveiflur í búskap en vandinn sem við horfum fram á núna er dýpri en nokkurn tíma áður.“

Mynd með færslu
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður félags sauðfjárbænda í Dalasýslu  Mynd: Eyjólfur Ingvi Bjarnason

 

Óttast frekari fækkun íbúa

Eyjólfur telur að lækkun afurðaverðs eigi eftir að koma harðast niður á þeim bændum sem hafa verið að byggja upp og eru skuldsettir. Verði þeir að hætta rekstri geti áhrifin orðið víðtæk. Hann tekur sem dæmi að færu þrjú sauðfjárbú í sveitarfélaginu í þrot, þá fari tíu börn úr grunnskólanum. „Það gæti leitt til þess að fjórða fjölskyldan flytur því að fækka þarf kennurum um einn. Það eru allir hlekkirnir nauðsynlegir og dómínó-áhrifin af þessu geta orðið mikil.“ Íbúar í Dalabyggð voru 678 talsins 1. desember síðastliðinn og hefur fækkað undanfarin ár. Í sveitarfélaginu eru mörg afleidd störf vegna sauðfjárræktar.

Sauðfjárbændur eru tilbúnir til þess að draga úr framleiðslu, að sögn Eyjólfs. Hann bendir þó á að þeir séu búnir að leggja drög að framleiðslu næsta árs. „Framleiðsluferlarnir eru langir. Ef menn hefðu vitað um þetta í upphafi árs þá hefði verið hægt að haga rekstrinum með öðrum hætti.“

Önnur störf ekki í boði

Verði bændur í Dalabyggð að hætta rekstri, er ekki um auðugan garð að gresja varðandi aðra atvinnu, að sögn Eyjólfs. „Við höfum ekki orðið vör við þennan aukna straum ferðamanna. Það mun ekki breytast núna með sterkara gengi þegar ferðamenn fara að spara hér á landi. Við hlaupum ekki í önnur störf, því þau eru ekki til staðar.“

Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti í gær samhljóða bókun þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af stöðu sauðfjárræktar og áhrifum tekjusamdráttar á bændur og samfélagið. Sauðfjárrækt er megin atvinnugrein í sveitarfélaginu. „Boðuð lækkun afurðaverðs veldur forsendubresti í rekstri marga sauðfjárbúa og mun hafa alvarleg áhrif á aðra starfsemi í sveitarfélaginu. Dalabyggð hefur glímt við fólksfækkun til margra ára og má ekki við frekari samdrætti,“ segir í bókuninni.

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir