Óttaðist að fá alelda bátinn yfir sig

19.05.2017 - 15:15
„Ég vil skila þakklæti til áhafnarinnar á Hólmanum og björgunarskipinu,“ segir Garðar Smári Björgvinsson sjómaður sem lenti háska í gærkvöld þegar bátur hans Jökull NS-73 varð alelda úti fyrir Vopnafirði.

Tæmdi öll slökkvitæki

Hann segist hafa setið inn í stýrishúsi og verið að prófa rúllurnar þegar hann varð var við eld í bátnum. Tilraunir hans til að slökkva báru ekki árangur. „Þegar ég var ég búinn að tæma þessi slökkvitæki sem eru um borð þá hendi ég björgunarbátnum í sjóinn og er þá kominn í gallann og búinn að hafa samband við gæsluna. Svo verður þetta bara alelda á ótrúlega skömmum tíma.“ Hann segir að það hafi ekki verið góð tilfinning að vera úti á sjó í litlum björgunarbát með alelda óbundinn bát við hliðina á sér. Hann segist hafa óttast að það mynd draga saman með bátunum. „Það er rekakkeri á björgunarbátnum þannig að hann var stopp. En báturinn sem eldurinn var í fjarlægðist.“

Keyrðu neyðarkeyrslu

Björgunarsveitir voru kallaðar út og á meðal þeirra sem fengu útkallið voru skipverjar á Hólmanum NS en þá voru þeir heima og báturinn í höfn. „ Þeir keyrðu alveg neyðarkeyrslu að mér og voru fyrstir að bátnum. Þeir voru bara snöggir,“ segir Garðar. Hann var tekinn um Borð í Hólmann en björgunarskip björgunarsveitarinnar Vopna, Sveinbjörn Sveinsson, slökkti eldinn en báturinn sökk áður en hægt var að draga hann til hafnar. Garðar segist ekki geta sagt til um eldsupptök.

Hér að ofan má horfa á frétt um atvikið sem flutt var í 22 fréttum sjónvarps í gærkvöld.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV