Ótrúlega montin af Pílu Pínu

12.02.2016 - 14:49
Ævintýrið um músina Pílu Pínu var frumsýnt í Hofi þann 7. febrúar við góðar undirtektir. Sýningin er ein sú viðamesta sem Menningarfélag Akureyrar hefur sett á fjalirnar en tæplega 100 manns koma að sýningunni.

Leikritið er eftir Heiðdísi Norðfjörð og er byggt á ævintýrinu um Pílu Pínu eftir Kristján frá Djúpalæk, hún hefur heillað yngstu kynslóðina í hátt í 40 ár en þetta er í fyrsta sinn sem hún hefur ratað á fjalir atvinnuleikhúss. Þær Sara Marti Guðmundsdóttir og Sigrún Huld Skúladóttir tóku sig til í sumar og endurskrifuðu verkið og færðu það nær samtímanum.

Sýningin er samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Leikfélags Akureyrar. Leikstjórinn Sara Marti Guðmundsdóttir segir samstarfið hafa gengið vel ,,þetta er rosalega stórt batterí og ég held bara það strærsta sem hefur verið sett á svið hér. Það hefur ekkert verið áfallalaust að sjálfsögðu ekki. Þetta er bara vinna að koma svona saman og þetta er búið að taka langan tíma enda er þetta rosalega stór og mikil sýning en við erum ótrúlega montin af þessu".   

Hof var ekki hannað sem leikhús en leikmyndahönnuðurinn Rebekka A. Ingimundardóttir segir það hafa verið skemmtileg áskorun að vinna í Hofi. Til dæmis er sviðið mun breiðara en hefðbundin svið í leikhúsum eða 17,29 metrar ,,það er náttúrulega ofsalega spennandi fyrir leikmyndahönnuð að vinna með þá lengd".

 

 

Mynd með færslu
Kolbrún Vaka Helgadóttir
dagskrárgerðarmaður
Kastljós
Menning