Óskarinn gagnrýndur fyrir að vera „hvítur“

14.01.2016 - 22:09
Annað árið í röð eru aðeins hvítir leikarar tilnefndir til Óskarsverðlauna. Akademían kaus meðal annars að tilnefna tvo hvíta handritshöfunda kvikmyndarinnar Straight Outta Compton en ekki leikstjóra hennar eða neinn úr leikaraliðinu sem allir eru blökkumenn.

Málið er einstaklega pínlegt fyrir Cheryl Boone Isaacs, forseta Akademíunnar, sem er sjálf blökkukona og hefur reynt að beita sér fyrir breytingum sem hugsanlega kæmu í veg fyrir svona uppákomur - til að mynda voru 300 nýir félagsmenn teknir inn í Akademíuna til að auka á fjölbreyttni hennar.

Cheryl Boone Isaacs sagði í viðtali við ABC-fréttastofuna að niðurstaðan væru mikil vonbrigði þar sem mikið af góðum myndum með blökkumönnum hefðu verið frumsýndar á árinu. „Þarna fór gott tækifæri forgörðum,“ sagði Issacs. 

Myllumerkið #OscarsSoWhite hefur verið endurvakið frá því í fyrra - þá var það í fyrsta skipti síðan 1998 að enginn svartur leikari var tilnefndur í neinum flokki.

Athygli hefur vakið að Akademían skyldi meðal annars sniðganga Michael B. Jordan, sem leikur aðalhlutverkið í kvikmyndinni Creed, en tilnefna Sylvester Stallone sem besta aukaleikara.

Sama má segja um Jennifer Jason Leigh og Samuel L. Jackson sem leika í Tarantino-myndinni Hateful Eight.  Leigh fékk tilnefningu sem besta aukaleikkonan en Jackson sat eftir með sárt ennið.

Leikarar á borð við Idris Elba og Will Smith voru einnig skildir eftir úti í kuldanum - Elba hefur fengið lofsamlega dóma fyrir leik sinn í Beasts of No Nation og hlaut meðal annars tilnefningu til Golden Globe og Bafta en ekki tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Will Smith hefur einnig verið lofaður fyrir frammistöðu sína í Concussion - hann var líkt og Elba tilnefndur til Golden Globe en hlaut ekki náð fyrir augum Akademíunnar.

Óskarsverðlaunin verða afhent í lok næsta mánaðar og verður sýnt frá athöfninni á RÚV.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV