Óskar upplýsinga um birtingu myndar af barni

06.08.2017 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavik.is
Forstjóri Barnaverndarstofu ætlar að kalla eftir upplýsingum frá lögreglu um birtingu myndar af 15 ára gömlu barni í tengslum við meint kynferðisbrot í Breiðholtslaug. Lögregla segir að nauðsynlegt hafi verið að birta myndina vegna þess hve alvarlegt málið er.

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu barst fyrr í vikunni kæra vegna manns sem grunaður er um að hafa brotið gegn ungum dreng í sturtuklefa Breiðholtslaugar síðastliðinn mánudag. Síðdegis á föstudaginn sendi lögreglan svo fjölmiðlum mynd af ungum manni sem tekin var úr eftirlitsmyndavélum laugarinnar. Lögreglan óskaði eftir því að ná tali af manninum vegna atviksins og hvatti þá sem þekktu til hans að láta vita. Um klukkutíma síðar barst önnur tilkynning frá lögreglu um að maðurinn væri fundinn og fjarlægðu þá fjölmiðlar myndina. Samkvæmt heimildum fréttastofu er drengurinn 15 ára gamall, fæddur haustið 2001.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hann ætli að fara yfir málið með lögreglu eftir helgi. Hann kjósi að tjá sig ekki um málið fyrr en að því loknu.

Hagsmunir vegast á

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að nauðsynlegt hafi verið talið að ná sambandi við drenginn en aldrei hafi verið upplýst nákvæmlega hvers vegna það hafi verið talið nauðsynlegt.

„Við í lögreglunni höfum ekki upplýst um aldur viðkomandi. En ég ítreka það að á þessum tímapunkti var það mat lögreglu miðað við alvarleika málsins að það þótti nauðsynlegt að hafa hratt uppi á þessum einstaklingi sem gæti gefið upplýsingar í málinu. Auðvitað vegast þarna á hagsmunir, hagsmunir þess að hafa uppi á manninum og leysa málið og að gæta þess meðalhófs að ekki sé gert óhagræði gagnvart þeim sem myndbirtingin er af,“ segir Grímur.

Höfðuð þið reynt aðrar leiðir við að komast að því hver hann væri?

„Já, já. Við höfðum reynt aðrar leiðir sem höfðu ekki skilað okkur árangri.“

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að hann sé 15 ára - gerðuð þið ykkur grein fyrir því að hann væri barn?

„Nei við vorum bara með myndina og gerðum okkur ekki grein fyrir því. Við þekktum ekki manninn og þú ert að segja að hann sé svona ungur. Við höfum ekki staðfest neitt um það,“ segir Grímur.

Óttist þið að þessi ungi drengur verði brennimerktur af því einu að tengjast þessu máli?

„Þessari spurningu er erfitt að svara. Það er auðvitað þannig með myndbirtingar í svona tilvikum að við verðum að fara varlega og það er auðvitað þannig að þeir sem birtar eru myndir af hafa af því óhagræði. Það er leiðinlegur fylgifiskur og alvarlegur. En ég ítreka það engu að síður að í þessu alvarlega máli, þar sem kæran er alvarleg, og hinn meinti atburður sem er rannsakaður er alvarlegur, þá töldum við rétt að fara þessa leið, og bíða ekki með að hafa uppi á þessum manni í tengslum við málið.“

Grímur segist þó hafa skilning á því að óskað sé nánari upplýsinga um málið.

„Mér finnst það eðlilegt að öll okkar verk séu til skoðunar og að þeirrar spurningar sé spurt, hvort rétt hafi verið að verki staðið,“ segir hann. 

 

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV