Óska eftir frekari áliti vegna snjóflóðavarna

09.02.2016 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tók þá ákvörðun á síðasta bæjarstjórnarfundi að óska eftir afstöðu Ofanflóðasjóðs og Veðurstofu Íslands vegna nýrra útfærsla á snjóflóðavörnum í Kubba í Skutulsfirði. Margir íbúar hafa verið ósáttir við stálgrindur sem til stendur að reisa í hlíðum fjallsins Útboð er hafið en bæjarstjóri segir að tilboði verði ekki tekið fyrr en svör frá Ofanflóðanefnd, og afstaða bæjarstjórnar í kjölfarið, liggi fyrir.

Á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn var, lögðu fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fram tillögu um að nýjar útfærslur sérfræðinga, sem voru kynntar á íbúafundi þann 28. janúar, yrðu kannaðar til hlítar áður en lokaákvörðun um varnirnar yrði tekin. Eftir umræðu var tillaga minnihlutans dregin til baka en bæjarstjórn féllst samhljóða á tillögu sem felst í því að óska eftir afstöðu Ofanflóðasjóðs og Veðurstofu Íslands til hugmynda sem Tómas Jóhannesson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, kynnti á íbúafundinum. Sú hugmynd felst í því að reisa 18 metra langan þvergarð í stað þess að setja upp stoðgrindur í hlíðum Kubba. Hvort tveggja útfærsla á því hvernig ljúka megi við snjóflóðavarnir Holtahverfis í Skutulsfirði. Bæjarstjórn óskar jafnframt eftir upplýsingum um hvaða áhrif slíkur garður hefur á hættumat Holtahverfis sem og hvort Veðurstofa og Ofanfljóðasjóður telji garðinn ásættanlega vörn fyrir Kubba. Einnig óskar bæjarstjórn eftir upplýsingum um hvort ásættanlegt þyki að sveitarfélög ákveði að skilja eftir hús á hættusvæði B þegar lausn sem fullver byggðina sé í boði - hvort það hafi áhrif á aðkomu Ofanflóðasjóðs að verkefninu. Svæðið er nú á hættusvæði C, sem sveitarfélögum ber að verja. 

 

Marzellíus Sveinbjörnsson er fulltrúi Framsóknarmanna í bæjarstjórn. Hann fagnar því að bæjarstjórn hafi sammælst um að óska ítarlegra og skriflegra upplýsinga um þær hugmyndir sem komu fram á fundinum. Útboð á fyrirhuguðum stálgrindum í Kubba er hafið en Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að hægt sé að hætta við það ferli komi til breytingar á útfærslu varnanna. Hann segir Ofanflóðanefnd og Framkvæmdasýslu ríksins með í þeirri óvissu sem nú sé til staðar vegna málsins. Hann segir að áður en tilboði í stálgrindurnar verði tekið verði svör Ofanflóðanefndar, og afstaða bæjarstjórnar í kjölfar þess, að liggja fyrir.