Óska eftir að málefni Melaskóla verði rædd

21.01.2016 - 22:35
Mynd með færslu
 Mynd: TommyBee  -  WikiMedia
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því á fundi borgarráðs í dag að málefni Melaskóla verði sett á dagskrá næsta fundar þess. Einnig var óskað eftir því að staða skólans verði reifuð af sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og að tillögur til lausnar verði kynntar.

Allt að 30 kennarar hafa hótað að segja upp starfi sínu við Melaskóla snúi skólastjóri, sem nú er í leyfi, aftur til starfa. Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sagði í fréttum í vikunni að málið væri ltiið alvarlegum augum.

Í ályktun sem bekkjafulltrúaráð Melaskóla samþykkti einróma 14. janúar kemur fram að staðan sé álitin grafalvarleg. Málið snýst um ósætti stórs hóps kennara við störf Dagnýjar Annasdóttur, skólastjóra.

Í ályktuninni segir: „Í ljósi þess djúpstæða stjórnunarvanda sem við blasir að hefur viðgengist innan skólans undanfarin misseri og þess trúnaðarbrests sem fyrir hendi er milli skólastjóra og kennara er augljóst að mati fundarins að varanleg lausn á vandanum getur ekki falist í neinu öðru en því að núverandi skólastjóri, Dagný Annasdótti, hverfi frá því starfi.“

Vísir greindi frá því í desember að meirihluti kennaraliðs skólans hefði lagt fram undirskriftalista hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar þess efnis að fundinn yrði annar skólastjóri.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV