Ósjálfrátt leitar tungumálið í verkin

21.04.2017 - 17:08
Myndlist · Opnun · Menning
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í lok apríl opnar sýning í Marshall-húsinu, þar sem boðið verður upp á þversnið af því sem er að gerast í íslenskri samtímamyndlist á Íslandi við upphaf 21. aldar.

Nú þegar tæplega hálfur mánuður er í opnun kynnumst við listamönnum sem styðjast að miklu leyti við tungumálið í verkum sínum.

Ólafur Sveinn Gíslason byggir á samtölum sem hann á við fólk og leggur þar grunn að verkum sem endurspegla ýmis afmörkuð svið mannlífsins. Á meðan tvíeykið, Inga Svala Þórsdóttir og Wu Shanzhuan, verða að treysta á samtal og þýðingu sín á milli þar sem þau sameinast um að skapa eitt höfundarverk. 

Inga Svala segir að í raun komi þrjú verk í senn út úr samvinnu þeirra. „Verkið hans, verkið mitt og svo sameiginlega verkið.“ Ósjálfrátt leitar tungumálið inn í verk þeirra þó þar komi líka stærðfræði og flatarmálsfræði við sögu.

Ólafur Sveinn Gíslason tekur fyrir ólíka kima samfélagsins, kynnir sér þá í þaula og túlkar síðan í margslungnum verkum. Hann notar myndlistina sem verkfæri til að kynnast því samfélagi sem hann er hluti af og bregður um leið upp sjónarhorni á viðfangsefnið fyrir okkur hin.

„Ég hef eiginlega unnið með texta alveg í 20 ár í mínum verkum,“ segir Ólafur. „Mín nálgun hefur verið í gegnum fólk. Ég hef tengt mig fólki og unnið með fólki í ákveðnum aðstæðum í ákveðnum rýmum.  Hluti af minni rannsóknarvinnu eða minni leið til að nálgast aðstæður var að taka viðtöl við fólk. Þetta þróast svo inn í innsetningar hjá mér. Ég fer að hafa hreinlega texta inni í innsetningum.“

Opnun er íslensk heimildarþáttaröð sem fjallar um samtímamyndlist á Íslandi. Í þessum þætti kynnumst við listamönnunum Ólafi Sv. Gíslasyni, Ingu Svölu og Wu Shazhuan. Samfélagslegar áherslur og tengsl milli menningarheima eru undirstaða verkanna sem þau vinna.