Ósátt við niðurstöðu innanríkisráðherra

19.01.2016 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  Rúv
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar er ósátt við niðurstöðu innanríkisráðherra að styðja ekki frekar við málaflokk fatlaðs fólks á Vestfjörðum þrátt fyrir athugsemdir Byggðasamlags Vestfjarða fyrir hönd sveitarfélagsins. Undir lok síðasta árs stefndi í 120 milljón króna halla á starfsemi Byggðasamlagsins sem sér um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum. Vestfirðir fengu minna úr viðbótarframlagi jöfnunarsjóðs en gert hafði verið ráð fyrir og virðist skuldastaða eftir árið 2015 verða um 72 milljónir króna.

Vonbrigði með lausnir

Gísli Halldór Halldórsson segir að þrátt fyrir að nýr samningur ríkis og sveitarfélaga hafi verið undirritaður í desember, þar sem 1,5 milljarður bætist í málaflokkinn, sé það ekki lausn á þeirri stöðu sem skapaðist á árinu 2015 þegar mikið vantaði upp á í málaflokknum. Þrátt fyrir athugasemdir Byggðasamlagsins hafi innanríkisráðherra að fenginni tillögu ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs, tekið ákvörðun um að styrkja málaflokkinn ekki frekar á Vestfjörðum. Í bókun bæjarráðs segir að: „Þannig séu Vestfirsk sveitarfélög látin sitja uppi með ógreiddan reikninginn af þjónustunni."

Mikill halli á rekstri

Sveitarfélögin bera ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum þess byggðasamlags sem þau eru aðilar að. Innbyrðis skiptist ábyrgð sveitarfélaga Byggðasamlags Vestfirðinga í hlutfalli við íbúatölu en þau fá mismikið eftir því hvar þjónustan er. Ísafjarðarbær greiðir 52 prósent af heildarupphæð en fær einnig 82,9 prósent af fjármagni BsVest þar sem stærstur hluti af þjónustunni er þar. 37 milljónir af því fjármagni sem uppá vantaði á síðasta ári lenda því á Ísafjarðarbæ. Sif Huld Albertsdóttir, verkefnastjóri hjá Byggðasamlagi Vestfjarða segir að samlagið geri allt sem hægt er til að hagræða rekstri í málaflokknum. Nú sé unnið að hagræðingarskýrslu til að hægt verði að nýta það aukafjármagn til málaflokksins sem best.