Ósammála áfengisfrumvarpi en hlynntur umræðu

24.02.2017 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  RÚV
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir frumvarp um að gefa smásölu áfengis frjálsa vera óheppilegt og segist vera andstæðingur þess. Þetta sagði Ásmundur á Alþingi við upphaf þingfundar í morgun.

Engu að síður bendir Ásmundur á að frumvarpið þurfi að fá eðlilega meðferð og komast til nefndar og svo ákveði þingið hvert framhaldið verði. Þar gagnrýndi hann þá þingmenn sem tóku þátt í fyrstu umræðu um frumvarpið í gær, margir þingmenn kvarti undan því að málið sé sett á dagskrá en haldi síðan langar ræður og fari í andsvör sem einungis lengi umræðuna. 

Samkvæmt könnun MMR sem birt var í morgun virðist frumvarpið njóta lítils stuðnings meðal þjóðarinnar. Alls kváðust rúm 74 prósent vera andvíg sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum og tæp 57 prósent andvíg sölu á léttu áfengi og bjór. Rúm fimmtán prósent reyndust hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en tæp 33 prósent hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór. 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV