Öryggisráðið fordæmir árásir á sendiráð

05.01.2016 - 05:38
epa05087648 Iranian protesters gather during an anti-Saudi Arabia demonstration at the Imam Hossein square in Tehran, Iran, 04 January 2016. Saudi Arabia cut diplomatic ties with Iran on 03 January 2016 and ordered Iranian diplomats to leave the country
 Mynd: EPA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmir harðlega árásir íranskra mótmælenda á sendiráð og ræðsimannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Íran á dögunum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem ráðið sendi frá sér í gær, mánudag. Ekkert er minnst á aftökur Sádi-Araba á 47 mönnum á nýársdag. Þeirra á meðal var sítaklerkurinn Nimr al-Nimr, en það var aftaka hans sem verið var að mótmæla þegar allt fór úr böndunum.

Í yfirlýsingu öryggisráðsins er kallað eftir því að írönsk stjórnvöld tryggi vernd sendiráða og sendiráðsstarfsfólks. Orðrétt segir: „Aðildarríki öyrggisráðsins fordæma harðlega árásirnar á sendiráð konungsríkisins Sádi Arabíu í Teheran og ræðismannsskrifstofu þess í Mashhad í Íslamska lýðveldinu Íran, sem leiddu til ólögmætrar inngöngu í húsnæði sendiskrifstofanna, sem olli verulegu tjóni þar á."

Ráðið lýsir síðan „þungum áhyggjum" af árásunum og hvetur yfirvöld í Teheran til að vernda húsnæði og starfsfólk erlendra sendiskrifstofa í landinu og uppfylla skyldur sínar á þessu sviði, í samræmi við alþjóðalög og venjur. Þá eru báðir deiluaðilar hvattir til að viðhalda samskiptum og vinna að því að draga úr spennu í þessum heimshluta.

Sendiherra Sádi-Araba hjá Sameinuðu þjóðunum hafði áður hvatt öryggisráðið til að gera allt sem í þess valdi stæði til að tryggja friðhelgi sendiráðs og sendiráðsstarfsfólks Sádi Aarbíu í Íran.

Yfirvöld í Ryad sendu einnig erindi til Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þar sem aftökurnar á mönnunum 47 voru réttlættar og gagnrýni Bans á þær hörmumð. Er því haldið fram í erindinu, að hinir líflátnu hafi fengi sanngjarna og réttláta málsmeðferð, þar sem kynþáttur, skoðanir og trú þeirra hefði engin áhrif haft á niðurstöðuna.

Mótmæli vegna aftöku Nimr al-Nimrs hafa haldið áfram í Íran. Þúsundir hafa safnast saman á götum og torgum, berandi skilti með slagorðum gegn Sádi Arabíu og myndum af hinum líflátna klerki.