Öryggisráðið fjallar um vopnahlé í Sýrlandi

26.02.2016 - 09:07
Mynd með færslu
Aleppo er illa leikin eftir margra ára borgarastríð.  Mynd: YouTube
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í kvöld og greiðir atkvæði um vopnahlé í Sýrlandi sem á að hefjast á miðnætti. Ályktunartillagan byggist á samkomulagi Rússa og Bandaríkjamanna um að hlé verði gert á vopnaviðskiptum og að leiðir verði opnaðar til að koma neyðarhjálp til aðþrengdra íbúa Sýrlands.

Öll ríki, sérstaklega þau sem komið hafa að friðarviðræðum, eru hvött til að beita sér fyrir því að  vopnahléið verði virt og tryggja að staðið verði við skuldbindingar um  að hjálparstofnanir komist til nauðstaddra íbúa.

Al-Assad Sýrlandsforseti hefur heitið því, að her hans virði vopnahléið. Það nær til allra nema íslamskra vígamanna úr hinu svonefnda Íslamska ríki og Al-Nusra samtakanna sem tengast Al-Kaída hryðjuverkanetinu.  Þá hafa forystumenn Tyrkja haft í hótunum að halda áfram árásum á Kúrda í Sýrlandi sem hafa verið í forystu í  baráttunni gegn íslömskum hryðjuverkamönnum í landinu.

Alls hafa um 260 þúsund látið lífið í borgarastríðinu í Sýrlandi sem hófst í mars 2011. Stefan De Mistura, sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, segir að vonir standi til að vonahléið sem á að hefjast á miðnætti að staðartíma, klukkan tíu í kvöld að íslenskum tíma, geti leitt til þess að friðarviðræður verði hafnar að nýju, jafnvel strax í næstu viku. De Mistura sleit síðustu viðræðum fyrr í þessum mánuði þegar sýrlenski stjórnarherinn hóf árásir á Aleppo hérað með fulltingi rússneska hersins.