Öryggi snjalltækja á heimilum ábótavant

06.02.2016 - 19:53
Öll nauðsynleg hjálpartæki atvinnulífsins, borðtölva og lyklaborð, snjalltæki, minnisbók og gleraugu
 Mynd: Stocksnap.io
Mikill meirihluti þráðlausra snjalltækja sem notuð eru á heimilum hér á landi er með úreltan tæknibúnað og því getur verið auðvelt að brjótast inn í þau. Neytendur ættu að gera meiri kröfur segir Björn Símonarson, öryggissérfræðingur hjá Syndis, á UT-messunni sem nú stendur yfir í Hörpu.

Björn hefur rannsakað öryggi smátækja eða snjalltækja sem eiga þráðlaus samskipti. Fjölmörg dæmi eru um það, erlendis, að brotist sé inn í tölvukerfi í fyrirtækjum og heimilum í gegnum slík tæki.     

Mörg tæki á heimilinu eru eða verða útbúin með snjalltækni og geta sent frá sér skilaboð. Snjalltæki geta verið skynjarar í öryggiskerfum, ljósastýringar, hljómtæki, sjónvörp, þvottavélar, ísskápar, ljósaperur, mælar fyrir hita- og rafveitu og svo framvegis. 

Hvað er hættulegt við það að brotist sé inn í snjallkerfi hljómtækis eða ljósaperu? „Það gæti þjónað sem stökkpallur inn á kerfin sem eru á heimilinu eða fyrirtækinu eða hvar sem það er,“ segir Björn Símonarson, öryggissérfræðingur hjá Syndis. „Þetta eru bara fleiri dyr inn í það kerfi, maður fer bara þangað sem veikasti hlekkurinn er.“

Björn hefur skoðað samskipti snjalltækja sem notuð eru hér á landi, og reynt að brjótast inn í þau til að ná stjórn á þeim.  Hann segist hafa náð stjórn á slíkum tækjum. Aðspurður hvort það eigi við öll þau tæki sem hann hafi reynt að stjórna svarar Björn: „Hingað til, já. Þessi tæki sem ég hef verið að skoða, þau eru að nota gamla tækni sem að fyrir kannski 10-15 árum hefði verið góð en hún er að verða úrelt í dag.“
  
Hversu algengt heldur þú að það sé að svona tæki séu að nota þessa gömlu tækni? „Það er því miður of algengt og af því sem ég hef verið að skoða þá myndi ég segja að það er bara mikill meirihluti,“ segir Björn. 

Mikilvægt sé að framleidd verði tæki sem eru tæknilega fullkomnari en þau sem nú eru notuð og að þau séu 100 prósent örugg.  „Neytendur eiga bara að gera kröfur, endursöluaðilar og þjónustuaðilar eiga að gera kröfur á sína birgja og þróunaraðilar eiga að búa til betri búnað,“ segir Björn. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV