„Örin vitnisburður um sigra“

12.01.2016 - 16:26
Myndir af ungu fólki með hvers kyns ör á líkama sínum eftir skurðaðgerðir fara nú eins og eldur í sinu á öllum samfélagsmiðlum. Þetta fólk hefur fengið krabbamein en í mörgum tilvikum sigrast á sjúkdómnum. Myndirnar eru partur af herferðinni Deildu örinu sem Kraftur, félag ungs fólks með krabbamein hefur nú farið af stað með og er að erlendri fyrirmynd sem ber yfirskriftina Share your scar.

Markmiðið er að opna umræðuna um líkamsörin sem krabbameinssjúklingar hafa fengið til að minna fólk á að krabbamein er ekki tabú. Það er ekki alltaf banvænt heldur eru örin vitnisburður um sigra. Hulda Hjálmarsdóttir formaður Krafts segist vona að myndirnar hvetji aðra til að sýna örin sín og úr verði kröftug bylgja á samfélagsmiðlum næstu daga.  

Kristján Björn Tryggvason er einn þeirra sem tók þátt í myndaherferð Krafts.  Hann verður þrjátíu og fimm ára í júní og greindist fyrst með heilaæxli árið 2006 og voru lífslíkur hans taldar vera um fimm ár eftir greiningu. Kristján telur hvert ár umfram þann tíma vera gjöf bæði fyrir sig og fjölskyldu hans þótt vissulega hafi þau tekið á. Hann segir að bjartsýni og jákvæðni hafi fleytt honum langt.  Á þessum tíma hefur Kristján gengist undir þrjár heilaskurðaðgerðir og er með þriðja stigs krabbamein sem þýðir að miklur líkur eru á því að það taki sig upp aftur. Hann er með áberandi ör á höfði eftir allar aðgerðirnar og hárið hefur ekki vaxið aftur á hliðunum. Hann segist þó aldrei hafa fengið óeðlilega athygli vegna þessara öra og hvetur alla til að sýna örin sín.  

Átakið endar svo á málþingi í Stúdentakjallaranum þann 26. janúar þar sem ungt fólk og aðstandendur þess ræða opinskátt um reynslu sína af krabbameini.   

Mynd með færslu
Helga Arnardóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós