Mynd með færslu
21.04.2017 - 12:00.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Þeir Bjarnasynir, Markús og Birkir, skipa sveitina Omotrack. Piltarnir ólust upp í Eþíópíu og fyrsta plata þeirra, Mono & Bright, er forvitnileg sambræðsla á rokki og raftónlist. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Ég sá þá Markús og Birki leika tónlist sína á nýliðnum Músíktilraunum og leist harla vel á. Hugmyndaauðgi og metnaður þó að úrvinnsla væri kannski ekki alveg í hæstu hæðum. Hvað getum við sagt, þeir bræður og meðspilarar eru að „spila upp fyrir sig“ á stundum, færni og þéttleiki nær ekki enn að endurspegla þær hugmyndir sem byltast greinilega ólmar um í hausnum á höfundum. Þessi ungæðislega ástríða er heillandi og strákarnir munu ná langt, sinni þeir listinni af alúð næstu misseri. Eða eins og þeir segja sjálfir: „Við erum með ákveðið „sound“ í huganum sem við þráum að koma frá okkur“.

Eþíópía

Saga Omotrack er forvitnileg, bræðurnir ólust upp í Eþíópíu þó að þess séu ekki merki í sjálfri tónlistinni. Þeir lýsa því sjálfir að þeir eigi í nokkurs konar fjarskynjunarlegu sambandi þegar kemur að tónlistinni, vinni m.ö.o. eins og einn maður en listinni hafa þeir sinnt frá blautu barnsbeini. Platan var tekin upp með aðstoð frá Adda 800 og hljómar feykivel og þá hafa þeir auk þess hlaðið fleiri spilurum í kring um sig en liðsskipan er svofelld: Markús Bjarnason (lagahöfundur, aðalsöngvari og gítarleikari), Birkir Bjarnason (lagahöfundur, hljómborðsleikari og söngvari), Gunnar Kristinn Óskarsson (trompet), Gríma Katrín Ólafsdóttir (trompet), Steinn Völundur Halldórsson (básúna) og Svavar Hrafn Ágústsson (saxófónn).

Upphaf

Platan rúllar nokkurn veginn eins og ég lýsti í upphafi. Það er erfitt að pinna niður stílinn, bæði er það hrósvert en einnig til vitnis um að þeir bræður eru einfaldlega ekki búnir að finna fótum sínum tónlistarleg forráð. Fyrsta laginu „Close“ vindur örugglega áfram, djúpur bassataktur leiðir það og yfir ýlfrandi gítar. Söngröddin í senn fjarlæg, dularfull og knýjandi (!). Tilkomumikið upphaf. „Blind spots“ er svipað, nokkurs konar teknórokk á meðan „Old habits“ er léttara, brassið komið inn og maður getur nánast dillað sér við það. Sama er að segja um „Taxi“, flott notkun á blæstri þar. „Life is now“ væri dæmi um fallvaltleikann, söngur og texti ekki að virka sem skyldi og smíðin léttvæg og sama má segja um „Slow“. Heilt yfir er þetta þó ansi lofandi frumburður og vel þess virði að setja nafn bræðrana á bakvið tónlistareyrað.

Tengdar fréttir

Tónlist

Omotrack - Mono & Bright

Tónlist

Epískt, gítarhlaðið indírokk

Tónlist

Allt hefur breyst, ekkert hefur breyst

Tónlist

Bylmingsslagarar í reffilegri Reykjavík