OR fær gögn um lán tengd Werners-mönnum

09.01.2016 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson
Hæstiréttur hefur dæmt þrotabú Glitnis til að afhenda Orkuveitu Reykjavíkur gögn um heildarútlán Glitnis til 12 fyrirtækja sem sum hver tengdust eða voru í eigu Werners-fjölskyldunnar. Slitastjórn Glitnis hefur stefnt Orkuveitunni um 750 milljóna krónur í tengslum við átta afleiðusamninga sem fyrirtækin gerðu á árunum 2002 til 2008.

Orkuveitan krefst sýknu í málinu og telur að ógilda eigi þessa afleiðusamninga þar sem bankinn hafi verið ógjaldfær -  gögn slitastjórnar Glitnis sýni að bankinn hafi brotið fjölda ákvæða laga sem giltu á fjármagnsmarkaði á árunum 2007 og 2008 með saknæmum og ólögmætum hætti. 

Vegna málsins óskaði Orkuveitan dómskvaðningar tveggja matsmanna í febrúar 2014 í því skyni að færa sönnur á Glitnir hefði veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína. Þeir matsmenn sem fyrst voru fengnir til verksins sögðu sig frá því og hafa tveir verið dómkvaddir í þeirra stað. Þeir hafa aflað gagna frá Glitni við matsvinnuna - sum skjöl hafa þeir fengið, önnur ekki.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu Orkuveitunnar um að veita fyrirtækinu aðgang að gögnum þessara tólf fyrirtækja. Hæstiréttur sneri þeim úrskurði við í gær og taldi að þetta væri tilgreindar og almennar upplýsingar sem Glitni væri skylt að veita. 

Fyrirtækin tólf sem Orkuveita Reykjavíkur fær gögn um samkvæmt dómi Hæstaréttar eru meðal annars Svartháfur. Fyrirtækið var skráð á Werner Ívan Rasmusson, föður Karls og Steingríms Wernerssonar og var eitt af stærstu skuldurum Glitnis. Orkuveitan fær einnig gögn um heildarútlán til Vafnings en töpuð útlán Glitnis til félagsins námu 15 milljörðum.

Þá fær Orkuveitan einnig upplýsingar um lán Glitnis til Lyf og heilsu, fyrirtækis í eigu Karls Wernerssonar, Rákungs, sem var í eigu forstjóra, aðstoðarforstjóra og starfsmanns eignarhaldsfélagsins Milestone og L&H eignarhaldsfélags sem var í eigu Milestone-samstæðunnar.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV