Opna skýli fyrir samkynhneigða hælisleitendur

01.02.2016 - 13:24
epa05072443 Migrants arrive from Serbia in Tovarnik, Eastern Croatia, near the Serbian border, 19 September 2015.  EPA/Zoltan Balogh HUNGARY OUT
 Mynd: EPA  -  MTI
Þýsk stjórnvöld opnuðu í dag sérstakt neyðarskýli fyrir samkynhneigða flóttamenn í Nürnberg. Þar er hægt að hýsa átta manns, nú þegar hafa fjórir sótt um pláss.

Samtök sem aðstoða hælisleitendur í Þýskalandi segjast hafa fengið beiðni frá tuttugu flóttamönnum um sérstaka aðstöðu fyrir samkynhneigða þar sem þeir sæti ofsóknum og ofbeldi að hálfu annarra flóttamanna – vitað er um tæplega hundrað slík tilfelli.

Formaður samtakanna segir að fordómar hverfi ekki þó fólk fari yfir landamæri, flestir séu að koma frá löndum þar sem samkynhneigð sé ekki viðurkennd og jafnvel ólögleg. Síðar í þessum mánuði verður annað og stærra gistiskýli fyrir samkynhneigða hælisleitendur opnað í Berlín og þar verður hægt að hýsa allt að hundrað og tuttugu manns.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV