Opinberir fánadagar Færeyja og Grænlands

12.03.2016 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Nikolaj Bock  -  norden.org
Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að 21. júní verði opinber fánadagur Grænlands og 29. júlí Færeyja. Fáni Grænlands, Erfalasorput, mun blakta við opinberar byggingar í allri Danmörku 21. júní og Merkið fáni Færeyja sömuleiðis 29. júlí. Færeyingar halda þjóðhátíð þann dag sem er Ólafsvakan.

Það vakti talsverða athygli í janúar þegar fjármálaráðuneytið fyrirskipaði öllum ríkisstofnunum að telja fjölda flaggstanga hjá sér.

Voru margar kenningar uppi um hvað hefði fengið skriffinna í fjármálaráðuneytinu til reka embættismenn út að telja flaggstangir. Höfðu margir málið í flimtingum og ótal skýringar voru settar fram á samfélagsmiðlum.

En nú er gátan leyst, menn þurftu að vita hversu marga færeyska og grænlenska fána þyrfti að panta svo opinberar stofnanir, sendiráð og sendiskrifstofur gætu dregið að húni réttan fána á réttum degi. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, segist hlakka til að sjá fána Færeyja og Grænlands að húni um allt ríkið. Lars Løkke er sagður mikill áhugamaður um Rigsfælledskabet, en svo nefna Danir ríkjasambandið við Grænland og Færeyjar.

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV