Önnur Hvalfjarðargöng í náinni framtíð

19.05.2017 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort áfram verði rukkað inn í Hvalfjarðargöng eftir að þeim hefur verið skilað til ríkisins. Starfshópur um framkvæmdir á stofnbrautum frá höfuðborgarsvæðinu hefur þetta meðal annars til umræðu.  

Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, um Hvalfjarðargöng. Þar kemur jafnframt fram að engar formlegar viðræður hafa átt sér stað við Spöl um yfirtöku ríkisins á Hvalfjarðargöngum en málið hefur verið til umfjöllunar í samgönguráðuneytinu.

Bjarkey spurði einnig hvort áform væru uppi um önnur veggöng undir Hvalfjörð með tilliti til vaxandi umferðar og öryggissjónarmiða, hvenær þær yrðu og hvernig þær yrðu fjármagnaðar. Í svari ráðherra kemur fram að ljóst sé að það þurfi að gera önnur göng í náinni framtíð og að unnið sé að mati á kostnaði. Þróun umferðar ráði mestu um hvenær hefjast þurfi handa við framkvæmdir. Ný göng séu ekki á samgönguáætlun og ekki hafi verið tekin ákvörðun um fjármögnun þeirra.