Omeyer og Narcisse hættir í landsliðinu

20.03.2017 - 15:30
epa02013138 French players Daniel Narcisse and Thierry Omeyer (R) celebrate after defeating Croatia in the final of the Handball European Championship 2010 between Croatia and France in Vienna, Austria, 31 January 2010.  EPA/GEORG HOCHMUTH
 Mynd: EPA
Tvær af goðsögnum franska karlalandsliðsins í handbolta undanfarin ár hafa ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna, markvörðurinn Thierry Omeyer og skyttan Daniel Narcisse.

Þeir eru íslenskum handboltaunnendum vel kunnugir eftir fjölmargar rimmur Frakka og Íslendinga gegnum tíðina og ótrúlega sigurgöngu Frakka.

Narcisse sem er 37 ára varð tvisvar Ólympíumeistari með Frökkum og á þar að auki eitt Ólympíusilfur. Hann varð fjórum sinnum heimsmeistari með liðinu og þrisvar Evrópumeistari. Hann lék 309 landsleiki og skoraði 912 mörk. Narcisse býr yfir miklum stökkkrafti sem varð til þess að hann fékk viðurnefnið „Air France“.

Omeyer sem er fertugur varð tvisvar Ólympíumeistari með Frökkum og á þar að auki eitt Ólympíusilfur. Þá varð hann 5 sinnum heimsmeistari og þrisvar Evrópumeistari með Frökkum. Hann lék 356 landsleiki.

Omeyer og Narcisse urðu báðir heimsmeistarar með Frökkum á heimavelli í janúar sl.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður