Ómetanleg íslensk myndlist í hálfa öld

10.06.2013 - 19:51
Mynd með færslu
Helstu gersemar íslenskrar myndlistar eru nú sýndar á stórri sýningu á Kjarvalsstöðum. Verkin eru yfir 200 eftir 40 listamenn, bæði þekkt og óþekkt. Sýningin er sögulegt yfirlit íslenskrar myndlistar frá aldamótunum 1900 til 1950.

Henni er deilt upp í ólíkar frásagnir, fyrsti hlutinn nefnist rómantík og róttækni, annar hlutinn landslag, þá maðurinn og umhverfi hans og loks nýróttækni og upphaf abstraktilstarinnar. Margar myndanna eru Íslendingum að góðu kunnar en ekki allar.

Ólafur Kvaran sýningarstjóri segir að á sýningunni sé að finna verk sem ekki hafa áður komið fyrir sjónir almennings. „Athygli vekur verk eftir Ásgrím Jónsson, ein af þeim formyndum sem hann gerði af Heklu, 1905, 1906, sem að því ég best veit hefur ekki verið sýnd áður opinberlega,“ segir hann.

Einnig eru þar verk á borð við Sumarnóttina eftir Jón Stefánsson og Fjallamjólk eftir Jóhannes Kjarval. „Sagan segir að safnstjóri Nútímalistasafnsins í New York hafi viljað kaupa verkið á sínum tíma, á 6. áratugnum, en að eigandi verksins, Ragnar Jónsson í Smára, hafi hafnað því og gefið verkið í staðinn Listasafni Alþýðu,“ segir Ólafur. 

Á sýningunni má einnig sjá yfilit róttækra abstrakverka Kjarvals sem gefa tóninn fyrir landslagsmyndir hans seinna. En það er ekki bara nú sem íslenskir myndlistarmenn eru í útrás: „Þeir listamenn sem við sjáum hér, margir þeirra voru mjög virkir, bæði í dönsku og alþjóðlegu listalífi,“ segir Ólafur. Hann segir íslenska listsögu hafa frá fyrstu tíð verið samofin erlendri listasögu. „Síðan höfum við þá sérstöðu á þessu tímabili að landslagið verður mjög ráðandi, það verður eiginlega tákn fyrir það þjóðlega í myndlistinni,“ segir Ólafur.

Inntur eftir því hvort hægt sé að meta heildarverðmæti sýningar á þessum toga segir hann svo ekki vera. „Nei ég vil ekki gera það og ég vil ekki búa til neinar freistingar í þeim efnum. Að sjálfsögðu er þetta okkar menningararfur, gríðarlega mikilvæg verk í okkar sögu sem hér eru samankomin,“ segir Ólafur.