Ölvaður api ógnaði knæpugestum

19.02.2016 - 06:16
Ölvaður hettuapi vopnaður hnífi var handsamaður af slökkviliðsmönnum við knæpu í Brasilíu í vikunni. Apinn lét öllum illum látum á barnum og ógnaði karlmönnum þar inni með hnífnum en lét konur vera.

Apinn drakk sig ölvaðan með því að lepja rommleifar úr glösum bargesta í borginni Paraiba. Slökkviliðsstjóri svæðisins segir barþjónana ekki hafa tekið eftir apanum og því hafi hann farið frjáls um knæpuna. Á myndbandi sem náðist af apanum sést hann á þaki knæpunnar með hnífinn í hönd. Hann sést stinga hnífnum nokkrum sinnum í þakið á meðan fólk fylgist með honum á jörðu niðri.

Eftir að hettuapinn var handsamaður var honum komið fyrir á verndarsvæði í nágrenninu. Þar hélt hann áfram að láta öllum illum látum að sögn Huffington Post, hræddi börn og aðra íbúa svæðisins. Því þurfti að handsama hann að nýju. Honum verður komið fyrir hjá Umhverfis- og endurnýtingastofnum Brasilíu í borginni Sousa. Þar verður metið hvort hægt verður að sleppa apanum villtum á nýjan leik eða hvort hann þurfi að búa í búri það sem eftir er að sögn slökkviliðsstjórans.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV