Öllum efnavopnum Sýrlendinga eytt

05.01.2016 - 15:11
epa03905358 (FILE) (FILE) A file picture dated 31 August 2013 shows the logo of the Organization for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW) outside its building in The Hague, The Netherlands. Reports on 11 October 2013 state Organization for the
Höfuðstöðvar Efnavopnastofnunarinnar í Haag.  Mynd: EPA  -  ANP FILE
Búið er að eyða öllum þeim efnavopnum sem Sýrlendingar afhentu í samræmi við samning sem gerður var fyrir rúmum tveimur árum. Talsmaður Efnavopnastofnunarinnar í Haag greindi frá þessu í dag.

Stjórnvöld í Damaskus afhentu síðustu efnavopnin í júní 2014. Hættulegustu efnunum var eytt um borð í bandaríska skipinu Cape Ray, en afgangurinn var sendur til eyðingar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Finnlandi. 

Á vef Efnavopnastofnunarinnar segir að bandaríska fyrirtækið Veolia hafi eytt 75 hylkjum með vetnisflúori í starfsstöð sinni í Texas og þar með hafi öllum þeim vopnum sem stjórnvöld í Damaskus hafi greint frá og afhent verið eytt.  

Ahmet Üzümcü, framkvæmdastjóri Efnavopnastofnunarinnar, segir að lokið sé mikilvægum áfanga, en enn verði haldið áfram að sannreyna hvort öllum vopnum hafi verið skilað í ljósi ásakana um notkun efnavopna í Sýrlandi á undanförnum mánuðum.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV