Öll tilboð yfir kostnaðaráætlun

15.02.2016 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öll tilboð sem bárust í undirbúningsvinnu, vegna Þeistareykjalínu eitt og Kröflulínu fjögur voru yfir kostnaðaráætlun. Landsnet bauð fyrir skemmstu út undirbúningsvinnu vegna lagningar tveggja háspennulína á Norðausturlandi sem eiga að tengja Kröflustöðvar, Þeistareyki og iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík. Tilboð voru opnuð á föstudag.

Tveir verktakar buðu í báðar línurnar og tveir til viðbótar í Kröflulínu eina. Kostnaðaráætlun Landsnets vegna beggja lína var 810 milljónir. Annað tilboðið var upp á rétt rúman milljarð og hitt tæpar 1.100 milljónir. Tilboðin voru því 25 og 35 prósentum hærri en Landsnet hafði gert ráð fyrir í kostnaðaráætlun sinni.

Tilboð í undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu eitt voru 22 til 40 prósent yfir kostnaðaráætlun. Tilboð í gerð Kröflulínu voru á bilinu fjórum til 67 prósentum hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Landsnet tekur á næstunni afstöðu til tilboðanna.

Reisa á 220 kílóvattalínur. Önnur er 32,6 kílómetrar og liggur milli tengivirkja í Kröflu og á Þeistareykjum. Hin er 28,8 kílómetrar, frá Þeistareykjum að Bakka. Ráðgert er að framkvæmdinni verði lokið í september á næsta ári og þá verði hægt að setja straum á línuna.

Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV