Öll nema tíu með reglur um útsendingar

11.06.2014 - 06:17
Innlent · Íþróttir · HM
Mynd með færslu
Ísland er eitt fárra Evrópuríkja þar sem ekki hafa verið settar reglur um að vinsælustu íþróttagreinarnar séu sendar út í opinni dagskrá. Reglurnar eiga að tryggja að allir geti horft á mikilvæga íþróttaviðburði, ekki aðeins áskrifendur þeirrar stöðvar sem hefur keypt útsendingarréttinn.

Ingrid Delterne, framkvæmdastjóri EBU, segir að á síðustu árum hafi sýningarréttur á vinsælum íþróttagreinum margfaldast í verði, áskriftarstöðvar geti greitt hærra verð en almannaþjónustustöðvar sem senda efni sitt í opinni dagskrá. Ríkisstjórnir margra Evrópuríkja hafi brugðist við með því að krefjast þess að þær íþróttir sem skipta landsmenn mestu máli verði sendar út í opinni dagskrá. Þannig geti allir horft á mikilvægustu íþróttaviðburðina, ekki aðeins áskrifendur þeirrar stöðvar sem hafi keypt útsendingarréttinn. Delterne segir að einungis tíu ríki sem EBU fylgist með á þessu sviði hafi ekki sett slíkar reglur, meðal þeirra er Ísland.