Öll kumlin verið rænd með skipulögðum hætti

11.07.2017 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Uppgröfturinn á Dysnesi við Eyjafjörð mun varpa ljósi á af hverju og hvernig kuml voru rofin af mannavöldum og þau rænd. Fornleifaræðingur sem stýrir rannsókninni segir að átt hafi verið við öll kumlin þar á einhverjum tímapunkti. Það hafi verið flóknar og skipulagðar aðgerðir.

Sex kuml hafa komið í ljós á Dysnesi, þar af tvö bátskuml. Starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands hafa lokið við uppgröft á þremur kumlanna og eru þessa dagana að grafa í þá þrjá hauga sem eftir eru.

Öll kumlin rofin af mannavöldum

Hildur Gestsdóttir, sem stýrir rannsókninni á Dysnesi, segir komið í ljós að öll kumlin hafi verið rofin af mannavöldum. „Einhverntímann í fyrndinni hafa menn farið og opnað haugana aftur og hreyft við því sem þar var,“ segir hún.

Farið í sum kumlin oftar enn einu sinni 

Og hún segir að röskun kumlanna af mannavöldum hafi á sínum tíma verið afar fólknar og skipulagðar aðgerðir. Dæmi séu um að farið hafi verði í kumlin oftar enn einu sinni. „Í sumum tilvikum hefur verið skilið eftir opið, það eru önnur tilvik þar sem hefur verið hreyft við, bæði fólkinu og haugfénu. Og svo lokað og tyrft yfir aftur. Þannig að við erum í rauninni að fá góðar upplýsingar um hvernig þessar raskanir á haugunum hafa átt sér stað.“   

Þessi rannsókn muni veita miklar upplýsingar 

Þetta muni hjálpa til við að skilja betur af hverju kuml voru rofin og hvernig það fór fram. Hingað til hafi verið horft á röskuð kuml sem skemmd og rannsóknargildi þeirra sé minna fyrir vikið. Svo sé ekki. „Við erum að sjá það meira og meira að það er bara mikilvægt að skilja það ferli sem á sér stað þegar það er verið að fara aftir þarna ofaní og opna þetta aftur. Og þetta mun veita okkur miklar upplýsingar um það, þessi staður,“ segir Hildur.