Óljóst hvora höndina árásarmaðurinn notaði

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist  -  RÚV
Hvorki blóðferlagreining né áverkar á líki gefa til kynna hvort gerandinn sé rétthentur eða örvhentur. Þetta sagði Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur á Landspítala, í viðtali við fréttastofu RÚV eftir að hann gaf skýrslu bak við luktar dyr í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Hann gaf skýrslu um niðurstöður krufningar sinnar á Birnu Brjánsdóttur á lokadegi aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Møller Olsen.

„Það voru nokkrir áverkar sem veittir voru með nokkrum aðferðum. Við verðum að bíða fram yfir lok réttarhaldanna áður en við getum farið ítarlega út í það vegna þess að það eru atriði sem haldið var frá almenningi í dag,“ sagði Kunz. Aðspurður hvort rannsókn leiddi í ljós hvort árásarmaðurinn hefði ráðist að Birnu með hægri eða vinstri hönd sagði hann að ekki væri hægt að segja til um það. „Hvorki blóðferlagreining né áverkarnir gefa til kynna hvort gerandinn hafi verið örvhentur eða rétthentur.“

Skýrslugjöf Kunz var bak við luktar dyr, samkvæmt ákvörðun dómara. Því eru takmörk fyrir því sem hann getur sagt um niðurstöður sínar. „Ég get sagt að mest af því hræðilega sem gerðist hefur þegar verið rætt í fjölmiðlum. Kollegi minn frá Þýskalandi greindi frá því sem gerðist og túlkaði niðurstöðurnar. Ég get sagt að ég er sáttur við niðurstöður hans. Ég gat bætt við nýjum valkostum og nýjum möguleikum en að lokum var ekkert nýtt sem kom fram í dag. Þetta voru niðurstöður krufningarinnar, blóðferlagreiningin og líkamsrannsókn á ákærða.“

Í söltu vatni

Dr. Mario Darok var annað vitnið sem gaf skýrslu í dag. Hann rannsakaði sýni kísilþörunga til að greina hvernig Birna hefði látist. „Gangi maður út frá því að dánarorsökin hafi verið drukknun þá benda niðurstöður krufningar til þess að drukknunin hafi átt sér stað í söltu vatni.“