Óljós mörk milli starfsnáms og vinnu

12.02.2016 - 19:42
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Ritstjóri tímarits laganema í HÍ segir að halda megi því fram að starfskraftar laganema séu nýttir ókeypis í einhverjum tilfellum. Skýrar reglur verða að vera milli starfsnáms, sjálfboðaliðastarfa og launaðra starfa segir forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Bandalag háskólamanna hefur gert athugasemdir í bréfi til WOW air auglýsi eftir lögfræðinema með BA-gráðu í meistaranámi í tímabundið starfsnám og krefst þess að fyrirtækið greiði laun fyrir starfið.

Upplýsingafulltrúi WOW air segir í tölvupósti til Fréttastofu að bréf BHM komi á óvart. Auglýsing WOW sé gerð í samstarfi við atvinnunefnd Orators, félags laganema við Háskóla Íslands. Starfsnámið sé að öllu leyti í samræmi við reglur lagadeildar HÍ um námsvist nemenda í framhaldsnámi.

Í næstsíðasta tölublaði Úlfljóts, tímarits laganema við HÍ, er fjallað um starfsnám nemenda: „Á undanförnum árum hefur starfsnám meðal laganema verið algengt og í einhverjum tilfellum hefur það verið launað en í mörgum tilfellum hefur það verið ólaunað,“ segir Þorvaldur Hauksson ,lögfræðingur og ritstjóri Úlfljóts.

„Mörkin á milli starfsnáms og starfa núna eru mjög óljós svo vægt sé til orða tekið og í einhverjum tilfellum má halda því fram að verið sé að nýta sér starfskrafta laganema ókeypis á kostnað bæði útskrifaðra lögfræðinga og laganemanna sjálfra sem eiga þá að fá greitt fyrir þau störf sem þeir eru að gegna.“ Deildarforseti lagadeildar segir að gagnrýni BHM verði rædd á fundi í næstu viku.

Í fréttum í gærkvöld var fjallað um fjölda sjálfboðaliðastarfa hér á landi sem auglýst eru á vefsíðunni Workaway. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins sagði í fréttinni að klárlega væri ólöglegt ef óskað væri eftir sjálfboðaliðum í efnahagslega starfsemi og nefndi gistiheimili eða iðnað.

 „Samtök atvinnulífsins eru þeirrar skoðunar að þarna verði að vera skýrar reglur,“ segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins. „Fyrirtækin verða auðvitað að vita hvaða heimildir þau hafa. Við erum að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja ef að fyrirtæki geta verið með fullt af erlendum starfsmönnum sem koma hér inn sem sjálfboðaliðar að skapa hér verðmæti í almennum störfum launamanna.  Það er eitthvað sem við teljum ekki heimilt samkvæmt okkar kjarasamningum og okkar vinnumarkaðsmódeli.“