Olíumengun í vatnslindum frumbyggja í Perú

23.02.2016 - 06:09
epa00159983 Pollution evidence in a pool contaminated with crude oil presented to the press, on Wednesday 24 March 2004,  in Shushufindi, Ecuador. Texaco-Chevron said it was up to Ecuatorian state oil firm Petroecuador to fix the problem. However,
Olíumengun er víða í Ekvador. Mynd frá 2004.  Mynd: EPA  -  EFE
Göt á aðalolíulögn Perú olli því að jafngildi 3.000 tunna af hráolíu lak í umhverfið á Amazon-svæðinu síðustu daga. Tvær ár, sem eru vatnslindir að minnsta kosti átta samfélaga frumbyggja, eru mengaðar að sögn stjórnvalda og leiðtoga frumbyggja.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir ríkisolíufyrirtækið Petroperu lofa því að hreinsa svæðið og færa samfélögunum sem þar búa mat og vatn. Fyrirtækið segir aurskriðu hafa valdið fyrri lekanum en orsök seinni leikans er ókunn. 
Árnar tvær eru í norðvesturhluta Perú. Illa hefur gengið að halda menguninni í skefjum vegna úrhellis að sögn leiðtoga frumbyggjasamfélags á svæðinu.

Heilbrigðisyfirvöld eru búin að lýsa yfir neyðarástandi vegna vatnsgæða í fimm héruðum. Umhverfisstofnun Perú segir Petroperu eiga von á allt að 17 milljóna dala sektum, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna, ef mengunin hefur haft heilsuspillandi áhrif á íbúa svæðanna.

Lekarnir eru ekki einangruð atvik að sögn umhverfisstofnunarinnar. Hún skipar Petroperu að skipta um hluta olíulagnanna og bæta viðhald þeirra.
German Velazquez, forstjóri Petroperu, íhugar að reka fjóra stjórnendur fyrirtækisins. Þeirra á meðal mann sem grunaður er um að hafa greitt börnum fyrir að hreinsa upp olíuna. Hann segir fyrirtækið vera að meta lagnirnar til þess að koma í veg fyrir frekari leka.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV