Olís deild kvenna: Óvænt úrslit í kvöld

12.09.2017 - 22:25
Tveir leikir fóru fram í Olís-deild kvenna í kvöld en það má segja að úrslit beggja leikja hafi verið vægast sagt óvænt. Á Selfossi unnu heimastúlkur góðan sigur á Stjörnunni, lokatölur 32-31. Í Safamýri var Grótta í heimsókn en flestir spá Fram titlinum. Grótta virðist ekki hafa fengið þau skilaboð en þær gáfu fram hörkuleik sem endaði með jafntefli.

Grótta hefði geta unnið leikinn en Lovísa Thompson brenndi af víti þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Fram 24 - 24 Grótta
Fram byrjaði leikinn betur en var þó aðeins einu marki yfir í hálfleik, staðan þá 13-12. Lovísa Thompson fór fyrir Gróttu liðinu í síðari hálfleik og Grótta var óvænt komið fjórum mörkum yfir þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá hins kom hinn umtalaði slæmi kafli hjá Gróttu en Fram tók Lovísu úr leik ásamt því að hún þurfti að fara útaf vegna meiðsla.

Fram komst svo yfir undir lok leiks en Gróttu tókst að jafna í 24-24 sem og liðið fékk vítakast þegar þrjár sekúndur voru eftir. Lovísa hafði komið aftur inn á og fór á vítalínuna. Guðrún Ósk Maríasdóttir gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði vítið. Bjargaði Guðrún þar með stigi fyrir Fram en það er ljóst að Gróttustúlkur fara sáttar heim með stig þó svo þær hefðu geta stolið báðum stigunum undir lokin.

Markahæst hjá Fram var Ragnheiður Júlíusdóttir með sjö mörk. Þar á eftir kom Þórey Rósa Stefánsdóttir með sex og Sigurbjörg Jóhannsdóttir með fimm. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 13 skot í marki Fram, þar af tvö víti.

Hjá Gróttu var Lovísa Thompson markahæst með sex mörk en Unnur Ómarsdóttir og Kristjana Björk Steinþórsdóttir skoruðu fimm mörk hver. Selma Jóhannsdóttir varði 14 skot í markinu.

Í spilaranum hér að ofan má sjá viðtöl við Alfreð Finnson (þjálfara Gróttu), Stefán Arnarson (þjálfara Fram) og Lovísu Thompson (leikmaður Gróttu).

Selfoss 32-31 Stjarnan
Fyrir fram var búist við sigri Stjörnunnar í kvöld en liðinu var spáð öðru sæti á meðan Selfyssingum var spáð botnbaráttu. Eins og Grótta þá virðist sem Selfyssingar hafi ekki vitað af spánni en liðið gerði sér lítið fyrir og vann frábæran eins marks sigur á Stjörnunni í kvöld.

Stjörnukonur voru með frumkvæðið framan af leik og leiddu með einu marki í hálfleik. Þær náðu ekki að halda því frumkvæði í síðari hálfleik og endanum fór það því svo að Selfyssingar fögnuðu eins marks sigri. 

Perla Ruth Albertsdóttir skoraði tíu mörk fyrir Selfoss á meðan Kristín Steinþórsdóttir skoraði níu. Hjá Stjörnunni var Brynhildur Kjartansdóttir markahæst með sjö mörk.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður