Ólík aðstaða þeirra sem hingað koma

11.02.2016 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir
Beiðnir 82 einstaklinga um alþjóðlega vernd hérlendis voru samþykktar í fyrra og 495 einstaklingar sem ekki höfðu áður haft atvinnuleyfi á Íslandi fengu slíkt útgefið. Að auki ákváðu stjórnvöld að taka á móti 50 kvótaflóttamönnum. Talsverður munur er á aðstöðu fólks eftir því hvort það kemur hingað til lands sem atvinnuleitendur, hælisleitendur á eigin vegum eða í hópum flóttamanna sem stjórnvöld hafa ákveðið að taka á móti.

Mikill munur er á því á hvaða grundvelli fólk hefur rétt til að setjast hér að eða fær að dvelja hérlendis.

Sumir án fyrirhafnar en aðrir gegnum nálarauga

Norrænir ríkisborgarar þurfa ekki dvalarleyfi hérlendis og ríkisborgarar EES- og EFTA-ríkja þurfa ekki dvalarleyfi en verða að skrá sig hyggist þeir vera hér lengur en þrjá mánuði. Ríkisborgarar annarra ríkja þurfa að sækja um dvalarleyfi vilji þeir vera hér lengur en í þrjá mánuði.

Nokkrar forsendur eru fyrir því að gefin eru út dvalarleyfi og/eða atvinnuleyfi. Það getur verið vegna íþróttaiðkunar, skorts á vinnuafli, vegna þarfar á sérfræðiþekkingu, til náms, af mannúðarástæðum og til fjölskyldusameiningar. Til dæmis eiga erlendir ríkisborgarar sem eiga foreldri sem er íslenskur ríkisborgari möguleika á að búa hér án dvalarleyfis eftir að hafa dvalið hér í tvö eða fimm ár með dvalarleyfi og ræðst munurinn meðal annars af aldri. Útlendingar sem hafa dvalið á Íslandi í fjögur ár samfellt með fullgildu dvalarleyfi geta fengið ótímabundið búsetuleyfi.

Sex leiðir til að fá atvinnuleyfi

Í grunninn má segja að fólk fái dvalarleyfi á grundvelli atvinnu af einni af sex ástæðum. Í fyrra voru gefin út 1.263 atvinnuleyfi. Þar af 495 ný leyfi en hin leyfin fólu í sér að eldri leyfi voru endurnýjuð.

Flest nýju atvinnuleyfin sem voru gefin út í fyrra féllu í skaut íþróttamönnum og þjálfurum. Þeir geta fengið tímabundið atvinnuleyfi, að því gefnu að þeir starfi hjá íþróttafélögum sem eiga aðild að Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands. Alls voru gefin út 127 atvinnuleyfi í þessum flokki.

Næstalgengast er að veitt sé atvinnuleyfi til að sinna tilteknu starfi hérlendis ef starfið krefst sérfræðiþekkingar sem er nauðsynleg fyrir ákveðið fyrirtæki sem hyggst ráða viðkomandi til starfa. Starfsmaðurinn þarf þá að sýna fram á háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun. 107 slík leyfi voru gefin út í fyrra.

Það úrræði sem kann að ná til víðtækasta hópsins er þó dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli. Slík dvalar- og atvinnuleyfi eru veitt til eins árs í senn og hægt að framlengja þau einu sinni. Slík leyfi á þó aðeins að veita ef starfsfólk fæst hvorki innanlands né á evrópska efnahagssvæðinu. Leita þarf umsagnar stéttarfélaga áður en slíkt leyfi er gefið út. 75 ný slík leyfi voru gefin út í fyrra.

82 leyfi voru gefin út vegna sérstakra aðstæðna, 65 á grundvelli fjölskyldusameiningar þar sem ættmenni var fyrir í landinu og 39 á grundvelli þjónustusamnings. Þá er miðað við að útlendingur komi hingað til lands í skemmri tíma til að veita ákveðna þjónustu á grundvelli þjónustusamnings.

Af þeim 1.263 atvinnuleyfum sem voru gefin út eða endurnýjuð í fyrra má auk nýrra leyfa nefna að 306 einstaklingar fengu framlengt atvinnuleyfi til starfa á sama stað og áður. 216 voru með atvinnuleyfi til að stunda hér nám og meðfram því vinnu í allt að 40 prósenta starfshlutfalli.

Hæli og alþjóðleg vernd

Í fyrra sóttu 354 einstaklingar um hæli eða alþjóðlega vernd á Íslandi. 82 fengu slíka vernd og þar af voru Sýrlendingar fjölmennastir, alls sautján. Fólkið sem fékk vernd var af 26 þjóðernum en fjölmennastir í hópi þeirra sem sóttu um voru Albanar. Þeir voru líka fjölmennastir þeirra sem var synjað um hæli og aðra vernd. Þeim var öllum synjað um hæli en tveimur fjölskyldum var veittur ríkisborgararéttur eftir að mál þeirra komust í hámæli.

Kvótaflóttamenn falla fyrir utan þennan lista og skiptu tugum í fyrra. Ákveðið var að taka á móti 50 Sýrlendingum með þeim hætti og kom stór hluti þeirra til landsins í janúar.

Ólík staða flóttamanna

Eðlismunur er á stöðu þeirra sem sækja um hæli hérlendis og þeirra sem koma hingað á vegum stjórnvalda sem kvótaflóttamenn. Þeir fyrrnefndu koma hingað til lands á eigin vegum og óska eftir hæli þegar hingað er komið. Þeim ber að sýna fram á að stjórnvöld skuli veita þeim hæli. Hinir síðarnefndu, kvótaflóttamennirnir, eru valdir til að koma hingað á grundvelli aðstæðna sem greindar eru erlendis. Því er ljóst við komuna hver staða þeirra síðarnefndu er en það getur tekið mörg ár að leysa úr beiðnum annarra þeirra sem óska hælis eða alþjóðlegrar verndar.

Hér má nefna sem dæmi sýrlenska flóttamenn sem komu til Íslands í ársbyrjun sem kvótaflóttamenn. Það var gert á grundvelli ákvörðunar stjórnvalda um að taka við 50 kvótaflóttamönnum. Samið var við þrjú sveitarfélög um að veita fólkinu þjónustu auk þess sem Rauði krossinn og sjálfboðaliðar koma að viðamiklu starfi til að hjálpa fjölskyldunum að komast inn í íslenskt samfélag. Hælisleitendur fá réttargæslumann og þeim er útvegað húsaskjól, fæði og aðrar nauðsynjar en langur tími getur liðið áður en örlög þeirra skýrast.

Loks má nefna að fólk getur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er gert ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Til dæmis er hægt að veita fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef það stríðir við alvarlegan heilsubrest. Slíkt er þó alla jafna ekki gert fyrr en beiðni fólksins um hæli eða alþjóðlega vernd hefur verið hafnað.

Veiting ríkisborgararéttar

Þriðja leiðin til að fá að setjast að á Íslandi er að fólk fái ríkisborgararétt. Almenna reglan er sú að fólk sem hefur búið hérlendis í getur sótt um ríkisborgararétt sem er veittur uppfylli það ákveðin skilyrði. Tímafresturinn er mislangur eftir aðstæðum fólks, tvö ár fyrir börn íslenskra ríkisborgara, fimm ár fyrir maka íslensks ríkisborgara og sjö ár fyrir aðra – þó aðeins fjögur ár fyrir ríkisborgara annarra ríkja á Norðurlöndum.

Uppfylli fólk ekki skilyrði um búsetu eða aðra þætti er hægt að sækja um ríkisborgararétt til Alþingis. Þingheimur getur veitt fólki ríkisborgararétt þó það uppfylli ekki almennar kröfur um ríkisborgararétt. Dæmi um þetta eru tvær albanskar fjölskyldur sem fengu ríkisborgararétt skömmu fyrir jól þrátt fyrir að beiði þeirra um hæli hefði áður verið synjað. Þá ákváðu þingmenn að veita fjölskyldunum tveimur ríkisborgararétt þar sem börn í báðum fjölskyldum glímdu við alvarleg veikindi.

Fólk sem fær íslenskan ríkisborgararétt fær ekki stuðning á við þá sem fá hæli eða alþjóðlega vernd. Þó eru dæmi um að einstaklingar taki höndum saman um að aðstoða fólk, svo sem albönsku fjölskyldurnar tvær.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV