Old Bessastaðir

Gagnrýni
 · 
Leikhúsgagnrýni
 · 
Leiklist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
 Mynd: Baldur Kristjánsson  -  Sokkabandið

Old Bessastaðir

Gagnrýni
 · 
Leikhúsgagnrýni
 · 
Leiklist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
09.02.2016 - 15:14.Guðni Tómasson.Víðsjá
María Kristjánsdóttir fjallaði í Víðsjá um Old Bessastaði, leikverk Sölku Guðmundsdóttur sem nú er sýnt í Tjarnarbíói.

 

Það var í Tjarnarbíó sem fyrsta verk Sölku Guðmundsdóttur „Súldarsker“ var frumsýnt og þá var alveg ljóst að hún yrði íslensku leikhúsi góður liðsauki. Nú fjórum árum síðar frumsýnir kvennaleikhópurinn „Sokkabandið“ á samastað undir leikstjórn Mörtu Nordal og í mynd Finns Arnar Arnarssonar og búningum Helgu I. Stefánsdóttur við tónlist Högna Egilssonar, nýjasta verk Sölku „Old Bessastaðir“. Sem sagt valinn maður í hverju rúmi. Það var því mikil eftirvænting í loftinu þegar menn hópuðust í salinn.

Við áhorfendur sitjum að því er virðist fyrir framan nánast autt leiksvið eða frekar baksvið þar sem partar úr leikmynd sýningar á  „Dýrunum í Hálsaskógi“ bíða þess annaðhvort að vera teknir í notkun eða hefur verið fleygt þarna því að sú sýning hefur runnið sitt skeið. Líkt og Dýrin í Hálsaskógi segjast persónur verksins þær Þorbjörg, Áróra og Dagrún ætla setja sér lög, „skilgreina áherslur, markmið og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að tryggja skilvirkan farveg fyrir þær aðgerðir sem ráðast þarf í.“ Þær vilja koma sér saman um sameiginleg  grunngildi; þær vilja heiðra og vernda: Mannúð og heilindi, virðingu, réttsýni, ábyrgð, réttlæti, jafnrétti. Og sameinast í verki. Framkvæma. Framkvæma.

Frá upphafi eru þessar framkvæmdasömu konur í búningum þ.e.a.s í mynd skilgreindar sem grímuklæddur eða andlitslaus hópur, fyrst sem hópur iðnaðar eða verkamanna sem er að þrífa, svo verða þær hættulegri sem marglitar Pussyriot  sem dreifa sjálfsmyndum Íslendinga, síðar hvítklæddir eiturúðarar sem einangra áhorfendur og hreinsa til að verjast vondum áhrifum, svartklæddir böðlar verða þær líka sem leiða barn á höggstokkinn, lögreglur, hryðjuverkamenn. Tilvísanir og tákn rugla mann stundum í ríminu í samhengi við textann ‒  en þrátt fyrir þá staðreynd og jafn þversagnarkennt og það hljómar vaxa upp úr andlitslausum, einkennisklæddum hópnum áhugaverðar og oft fyndnar persónur. Þær eru sjálfum sér ósamkvæmar, þær takast á og niðurlægja til skiptist hver aðra, afhjúpa sitt innra sjálf í eintölum. En í lokin, að því er virðist bara svona allt í einu,  rís ein þeirra upp sem fullskapaður ræðusnillingur þjóðernishyggjunnar og nú í tilbúinni leikmynd. Og það skildi ég ekki. Jú, að myndhöfundur lokaði mjög sterkt sinni sýn, dagar dýranna í Hálsaskógi voru taldir, tímar einræðis runnir upp, það skildi ég. En ég skildi ekki þetta stökk í persónunni. Hugleiddi hvort höfundur væri svo heillaður af leikhúsi fáránleikans eða hvort á síðustu stundu hefði verið ákveðið að skera heilt atriði úr verkinu. Það væri þess vegna sem vantaði þróun í  Dagrúnu hennar Elmu Lísu Gunnarsdóttur. Þróun frá þeirri mjúku,  fyndnu skemmtilegu andstæðu við alvarleika, hræsni og ábyrgðarþunga hinna persónanna sem hún sýnir í byrjun og til þess að hún líkamnar harðasta naglann í bænum, en bæði andlitin túlkar Elma Lísa ákaflega vel.

En svo las ég handritið og komst að því að frá höfundarins hendi  vantaði ekki þróun í persónu Dagrúnar. Það hafði einfaldlega gerst sem svo oft gerist í leiksýningum á Íslandi að einblínt er á persónur, innra líf þeirra, en hvorki horft til samhengis þeirra né áhrifa þeirra hver á aðra, hvað þá tengsl þeirra við  umhverfið.  Lestur textans afhjúpar nefnilega að Dagrún er lokkuð í félagskap þeirra Þorbjargar sem María Heba Þorkelsdóttir leikur og Áróru sem Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur; þær tvær kenna svo Dagrúnu, heilaþvo hana þar til hún hrifsar til sín forystuhlutverkið.  En þennan kjarna verksins, hvernig fasisti verður til,  er ekki hægt að lesa út úr sýningunni. Hvorki María Heba né Arndís fá að sýna hvernig hægt er að búa til skrýmsli heldur einungis að afhjúpa sitt krumpaða, innra líf sem leynist á bak við klisjurnar sem velta af vörum þeirra. Og það gera þær vissulega vel. En ræðum líka klisjur þeirra. Þær endurspegla annars vegar tungutak stjórnmálamanns af hægri vængnum, sem hamrar einsog Þór og getur brugðið sér í allra kvikinda líki og hins vegar tungutak góðgerðar-þenkjandi félagsráðgjafa sem lýsir upp norrænar slóðir. Stjórnmálamaðurinn sjálfur og félagsráðgjafinn eru samt sem áður vart sýnilegir áhorfendum og úr oft snjöllum, ekki bara fyndnum, leik höfundar með tungumálið og hvernig það orkar á okkur og hugsar fyrir okkur er heldur ekki unnið í sýningunni. Frekast fundust mér skilaboð sýningar hvað klisjurnar varðar svolítið eins og úr leiðara Morgunblaðsins að okkur stafi mikil hætta af bloggurum og athugasemdum lýðsins á vefsíðum sem eru reyndar oft andlitslausir eða með grímur. 

Mér skilst að höfundur hafi starfað náið með listrænni forystu og leikhópnum á æfingartímanum. Það er full ástæða fyrir þann fríða flokk kvenna og karlmanna að setjast niður og spyrja sig hvers vegna kjarni verksins og fjölbreytileiki skilaði sér ekki til áhorfenda. Það geta verið margar ástæður fyrir því aðrar en ég tiltek hér. En ég er fullviss um að út í myrkrið ganga margir áhorfendur með þá einföldu mynd í höfðinu að undir yfirborði hræddra einmana öryrkja í félagslegum íbúðum í Breiðholtinu búi geðveikir kattarmorðingjar sem taka munu yfir morgundag okkar með hræðilegum afleiðingum.  Og það hefur áreiðanlega ekki verið markmiðið með þessari sýningu. Eða hvað?