Ólafur Ragnar staðfestir lögin

09.07.2013 - 16:19
Mynd með færslu
Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur ákveðið að staðfesta lög um lækkun veiðigjalds. Hann sagði að það hefði verið svo afdrifaríkt að synja lögum sem þessum staðfestingar að það væri ekki hægt að gera nema mjög eindreginn vilji væri fyrir því í samfélaginu.

Forsetinn sagði að þegar hann hefði vísað lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði það varðar grundvallaratriði lýðræðisskipunar eða efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga. „Með lögum um veiðigjald sem Alþingi hefur nú samþykkt er ekki verið að breyta skipan fiskveiða,“ sagði forsetinn. Hann hvað að áfram yrði greitt veiðigjald fyrir nýtingu veiðiheimilda, tíu milljarða króna á næsta ári. Hann sagði að meginbreytingin væri sú að hækkun veiðigjald kæmi ekki til framkvæmda.

Ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um skattamál
Ólafur Ragnar sagði ljóst að lögin yrðu tímabundin en ekki til frambúðar. „Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingar á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar.“ Forsetinn sagði að efnislegi þátturinn sem hann hefði þurft að taka tillit til væri sá að munurinn á fyrri lögum og þeim sem hann samþykkti nú væri þriggja milljarða króna greiðslur vegna veiðigjalds á næsta ári.

Meðal þeirra spurninga sem forsetinn fékk á blaðamannafundi var sú hvort hann gæti talað um veiðigjöld sem skatta, hvort hér væri ekki um tvo ólíka hluti að ræða. „Hér er því að mínum dómi alveg augljóslega um skattamál að ræða,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson og vísaði til fjármálaráðherratíðar sinnar. Hann sagðist ekki sjá grundvallarmun á því hvort tekjuleiðir ríkisins kölluðust skattar, opinber gjöld eða eitthvað annað.

Ekki sjálfkrafa synjun vegna undirskrifta
Forsetinn sagði enga mótsögn vera í því að hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar þegar 32 þúsund manns skoruðu á hann 2004 en staðfesti veiðigjaldalögin nú sem 35 þúsund manns hefðu skorað á hann að staðfesta ekki. Hann sagðist ekki vilja gefa það fordæmi að tekjumál ríkisins, með breytingu upp á þrjá milljarða króna, færu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Hún hefur aldrei gilt um öll frumvörp jafnt,“ sagði Ólafur Ragnar aðspurður hvort 26. grein stjórnarskrárinnar, um synjunarrétt forseta, gilti þá ekki jafnt um öll frumvörp. Hann sagði að ekki þyrfti undirskriftir til að forseti synjaði lögum staðfestingar. Það ætti hann aðeins við sitt mat, samkvæmt stjórnarskrá. 

Hluti máls en ekki stór breyting
Undanfarnar vikur hafa verið rifjuð upp orð sem forsetinn lét falla í kosningabaráttu fyrir forsetakosningar í fyrra. Þá sagði hann að fá mál væru jafn vel til þess fallin og stjórn fiskveiða að láta þjóðina greiða atkvæði um þau. Forsetinn sagði í dag að það væri ekki verið að breyta stjórn fiskveiða, og hvorki verið að afnema veiðigjald eða sérstakt veiðigjald. Nú væri aðeins um tímabundna breytingu að ræða á þeim upphæðum sem væru innheimtar. Það væri því ekki um að ræða sambærilega löggjöf um stjórn fiskveiða og hann hefði sagt í viðtali að væru vel til þess fallnar að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Synjaði lögum þrisvar staðfestingar
Ólafur Ragnar Grímsson forseti braut blað í sögu þjóðarinnar þegar hann neitaði 2. júní 2004 að staðfesta fjölmiðlalög sem Alþingi hafði staðfest. Lögin voru afar umdeild og skoruðu 32 þúsund manns á forsetann að staðfesta lögin ekki. Ekkert varð þó af því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um gildistöku fjölmiðlalaganna. Ríkisstjórnin boðaði Alþingi saman til aukaþings. Þar var ákveðið að fella lögin úr gildi með nýrri lagasetningu. Þau lög undirritaði forsetinn og varð því hvorki af setningu fjölmiðlalaga né þjóðaratkvæðagreiðslu um gildistöku laganna.

Fimm og hálfu ári síðar, 6. janúar 2010, synjaði Ólafur Ragnar lögum í annað sinn staðfestingar. Það var þegar lög um ríkisábyrgð vegna Icesave voru lögð fyrir hann. Icesave-lögin voru enn umdeildari en fjölmiðlalögin. Það sést meðal annars af því að 56 þúsund manns undirrituðu áskorun á forsetann um að staðfesta ekki lögin. Forsetinn varð við þeirri áskorun. Engin lög voru þá í gildi um hvernig ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Setja þurfti lög um slíkar atkvæðagreiðslur. Stuðningsmenn og andstæðingar laganna börðust fyrir og gegn staðfestingu þeirra, með auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi. 6. mars fór síðan fram fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan á grundvelli synjunar forseta. 98,2 prósent kjósenda greiddu atkvæði gegn lögunum en 1,8 prósent með þeim. Þá höfðu íslensk og bresk stjórnvöld gefið til kynna að betri samningur gæti náðst.

Seinni Icesave-lögin voru lögð fyrir forseta snemma árs 2011. 38 þúsund undirskriftir gegn lögunum söfnuðust og voru þær afhentar forsetanum. Hann ákvað sem fyrr að synja lögunum um staðfestingu. 9. apríl það ár greiddu 59,7 prósent kjósenda atkvæði gegn lögunum en 40,1 prósent studdu þau.

brynjolfur@ruv.is