Ólafur Elíasson hlaut Crystal verðlaunin

20.01.2016 - 18:57
Listamaðurinn Ólafur Elíasson hlaut Crystal-verðlaunin á aþjóðlegu efnahagslegu ráðstefnunni World Economic Forum í Davos í Sviss í dag.

Verðlaunin fékk Ólafur fyrir að vera leiðandi í sköpun sem gagnast samfélaginu. Sérstaklega var minnst á verkefni Ólafs, Little Sun, sem er framleiðsla á sólarknúnum lömpum. Fyrir hvern seldan lampa er annar gefinn í löndum þar sem rafmagn er af skornum skammti.

Ásamt Ólafi voru verðlaunaðir bandaríski stórleikarinn Leonardo DiCaprio, fyrir baráttu sína í loftslagsmálum, kínverska leikkonan Yao Chen, fyrir að vekja athygli á málefnum flóttamanna, og tónlistarmaðurinn will.i.am, fyrir að skapa fátækum börnum tækifæri til náms.

Mynd með færslu
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV