Ólafur Elíasson gefur flóttamönnum Grænt ljós

Feneyjatvíæringurinn
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Ólafur Elíasson
 · 
Menningarefni

Ólafur Elíasson gefur flóttamönnum Grænt ljós

Feneyjatvíæringurinn
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Ólafur Elíasson
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
24.05.2017 - 17:17.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin, .Kastljós
Dansk-íslenski listamaðurinn Ólafur Elíasson tekur þátt í aðalsýningu, Feneyjatvíæringsins. Hann setur málefni flóttamanna á oddinn í sýningunni Green light og safnar í leiðinni fé fyrir málstaðinn. Hann segir listamenn geta haft bein áhrif á samtímann ekki síður en stjórnmálamenn.

Sýning Ólafs Elíassonar, Green Light  eða Græna ljósið er í raun vinnustofa, þar sem gestir geta sest niður með flóttamönnum, sett saman ljós og hlustað á sögur þeirra í leiðinni.

„Græna ljósið er kannski bara afsökun til að vera hérna,“ segir Ólafur. „Aðalhugmyndin er samskiptin, að eiga tíma saman og hlusta á hvert annað.“

Vekur athygli á og safnar fé fyrir málstaðinn

Auk þess að gera flóttamenn sýnilega notar Ólafur Græna ljósið líka sem vettvang til að safna fé fyrir málaflokkinn. Hælisleitendur hafa ekki atvinnuleyfi og mega ekki vinna sér inn peninga. Á sýningunni er hins vegar hægt að leggja til fjárframlög upp á 250 evrur, um 28 þúsund krónur, og fá í staðinn grænt ljós. Féð rennur svo til félagasamtaka sem starfa í þágu flóttamanna og hælisleitenda. 

„Fullt af fólki hefur látið fé af hendi rakna í dag, við erum búin að safna tíu þúsund evrum,“ sagði Ólafur á opnunardegi sýningarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Listræn lóð á vogaskálarnar

ÓIafur segir að þetta sé tilraun til að sýna hvað listamenn geti lagt af mörkum. 

„Þetta er samvinnuverkefni við sveitarfélög í Feneyjum og frjáls félagasamtök, sem eru öl í samstarfi við ríkið. Þetta er ekki bara listaverk heldur skemmtileg samvinna milli ólíkra geira. Hugmyndin er að búa til kerfi sem hægt er að endurgera og útfæra annars staðar. Á föstudag koma fulltrúar flóttamannamála hjá sex sveitarfélögum í Danmörku. Þeir eru að hugsa um að gera þetta sex sinnum í Danmörku í samstarfi við heimamenn. Við erum búin að gera þetta þrisvar sinnum og erum á leiðinni til Japan. Ef þetta gengur vel væri gaman að sjá þetta á fleiri stöðum líka.“

Félagslegur skúlptúr

Ólafur segist kunna vel við sig á landamærum fagurfræði og hins félagslega.

„Ég hef alltaf talað um listaverkin mín sem bæði kannski abstrakt mynd og félagslega hugmynd. Þetta er alltaf tengt. Maður sér kannski minna af því á því sem kallað er hinn venjulegi listamarkaður, því hann snýst alltaf um peninga, en samfélagshugmyndir eru til staðar í allri list þannig lagað. Hér er þetta mjög afgerandi, það má jafnvel kalla þetta félagslegan skúlptúr.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Listaheimurinn getur verið ofboðslega snobbaður

En hvernig hafa gestir á Feneyjatvíæringnum tekið framtaki hans?

„Viðbrögðin hafa verið góð en fólk er alltaf mjög vingjarnlegt við mig og segir kannski ekki alltaf sannleikann,“ segir hann og hlær.  „En það er góð stemning og ágætis samskipti. Listaheimurinn getur verið ofboðslega snobbaður. En hér er ekki mikið snobb, að minnsta kosti ekki núna. Þannig að jú, þetta gengur mjög vel.“

Rætt var við Ólaf Elíasson í Menningunni í Kastljósi. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Myndlist

Egill Sæbjörnsson tröllríður Feneyjum