Óhugur í Þjóðverjum eftir árásir á nýársnótt

05.01.2016 - 18:43
epa05088781 Police vehicles outside the main station in Cologne, Germany, 5 January 2016. Following assaults on women around Cologne's main station at New Year, mayor Henriette Reker held a crisis meeting.  EPA/OLIVER BERG
 Mynd: EPA  -  DPA
Talsverður óhugur er í íbúum Þýskalands eftir að fregnir bárust af því að ráðist hafi verið á að minnsta kosti 90 konur á nýársnótt, við aðaljárnbrautastöðina í Köln. Vitni segja að hópar ungra, ölvaðra manna, hafi króað konur af, rænt þær og brotið gegn þeim kynferðislega. Að minnsta kosti ein nauðgun hefur verið kærð. Fréttir hafa borist af svipuðum árásum í Hamborg.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hringdi í dag í borgarstjóra Kölnar, Henriette Reker, til að tjá henni óhug sinn vegna árásanna. Hún sagði nauðsynlegt að réttarríkið brigðist hart við.

Grunur beinist að hópi þjófa

Að því er fram kemur í dagblaðinu Kölner Stadt-Anzeiger, beinist grunur að ákveðnum hóp manna sem lögregla hefur fylgst með undanfarna mánuði. Talið sé að ofbeldismennirnir tilheyri hóp þjófa sem sem herjað hafa á vegfarendur í miðbæ Kölnar og hverfum þar sem ferðamenn eru fjölmennir. Haft er eftir starfsmönnum lögreglunnar, vitnum og fólki sem ráðist var á, að ofbeldismennirnir hafi verið 15-35 ára, ættaðir frá Norður-Afríku eða Miðausturlöndum. Þeir hafi verið ölvaðir. Lögregla fullyrðir að hinir grunuðu séu ekki flóttamenn.

Sögðu að nóttin hefði verið friðsamleg

Lögregluyfirvöld í Köln hafa verið gagnrýnd, meðal annars af yfirmanni lögreglumála í Þýskalandi, fyrir að fullyrða á nýársmorgun að nóttin hafi verið friðsamleg, rétt eins og fyrri ár.

Wie im Vorjahr verliefen die meisten Silvesterfeierlichkeiten auf den Rheinbrücken, in der Kölner Innenstadt und in Leverkusen friedlich.

Ekki er ljóst hve margir kunni að hafa tekið þátt í árásunum eða hvernig nákvæmlega atburðarásin var. Lögregla hefur þó sagt að klukkan ellefu á gamlárskvöld, hafi um eitt þúsund karlmenn á aldrinum 15-35 safnast saman á torginu fyrir framan aðaljárnbrautastöðina í Köln. Mennirnir hafi verið ölvaðir og skotið flugeldum að nærstöddum. Eftir að lögregla kom á staðinn og rýmdi torgið, tvístraðist hópurinn, að því er fram kemur í þýskum fjölmiðlum. Næstu klukkustundir, frá miðnætti til klukkan fjögur, hafi árásirnar átt sér stað.

Næstum bara karlmenn á torginu

Kona sem var á torginu á nýársnótt, sagði frá upplifun sinni í viðtali við vef Spiegel. Konan, sem er 27 ára, segir að henni hafi verið mjög brugðið þegar hún kom niður í miðbæ Kölnar á gamlárskvöld. Hún segir að á torginu fyrir framan aðaljárnbrautarstöðina hafi næstum því bara verið karlmenn. Margir þeirra hafi starað á þær örfáu konur sem voru á torginu, en þær litið skelkaðar út. 

Einnig ráðist á konur í Hamborg

Lögregluyfirvöldum í Hamborg hefur verið tilkynnt um 27 árásir, svipaðar þeim sem konur urðu fyrir í Köln. Á vef Spiegel er rætt við konu sem ráðist var á, þegar fór út af næturklúbb í miðbæ borgarinnar. Úti fyrir hafi nær eingöngu karlmenn verið á ferli. Tugir þeirra hafi umkringt hana og káfað á henni. Hún hafi að lokum komist inn á annan skemmtistað og loks heim með leigubíl. Eftir atburðinn upplifi hún hins vegar mikinn ótta í sínu daglega lífi. Konan, sem er 19 ára, segir að hún hafi áður farið út að skemmta sér um næstum því hverja helgi. Nú geti hún hins vegar ekki hugsað sér að fara aftur í skemmtanahverfi borgarinnar. 

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV