„Óhæfa að vanhirða búfjár viðgangist“

Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Sigurður Sigurðarson fyrrverandi yfirdýralæknir segir að vanhirða á búfé á útigangi viðgangist í sveitarfélaginu Árborg og víðar um land. Hann ritar grein um þetta, „Kaplaskjól og klakaklárar“, sem birt er í Dagskránni á Selfossi. Sigurður segir að sums staðar sé takmarkaður aðgangur að drykkjarvatni, beit takmörkuð, ekkert gefið og skjól ekkert eða lélegt. Þetta sé þvert á lög og reglur, óhæfa og þjóðarskömm.

Sigurður segir sum löndin sem þannig sé háttað séu leigð út af sveitarfélaginu, jafnvel sömu mönnum ár eftir ár. Ekki sé gengið eftir því að hrosseigendur uppfylli skilyrði sem þeim séu sett. Þau séu að hafa náttúruleg skjól eða manngerð skýli, nægt fóður og aðgang að drykkjarvatni. Þessa vanrækslu eigi ekki að líða lengur. Þrátt fyrir þetta séu komin ný dýraverndarlög og fögur fyrirheit hafi verið gefin um breytt og bætt eftirlit og betri eftirfylgni.

Hross og nautgripir í vanhirðu

Dýralæknirinn segir að umhleypingasamur Þorri sé liðinn, „snjóasamur með frostaköflum og hrakviðrum". Góa hafi verið lítið betri. Hann búi á Selfossi , hafi fylgst með svæðinu árum saman og sjái litlar úrbætur Sums staðar sé alls ekkert gefið þótt beit sé takmörkuð vegna snjóa, frosta og ofbeitar og vötn séu frosin. Sums staðar ekkert skjól, annars staðar sýndarskjól, ein eða fáar rafmagnsrúllur sem ekki uppfylli kröfur laga og reglna. Hér sé einkum verið að tala um hross, en nautgripir séu jafnvel hafðir úti heilu veturna. Þeir séu enn verr búnir en hross til að standa af sér illviðri og umhleypinga. Holdagripir þoli hrakviðri betur, en þeir þoli ekki hvað sem er. Skepnurnar leggi af og innyflaormar magnist.

Matvælastofnun máttlaus

Sigurður undrast hve fáir láti sig málið varða. Hann hvetur fólk sem hafi grun um eða verði vart við illa meðferð á dýrum að skrifa Matvælastofnun og senda lögreglu og sveitarfélagi afrit. Fólk geti beðið um nafnleynd. Treysti það sér ekki til þess, geti það skrifað sér á sigurdur@hi.is eða hringt til sín. Hann segist ætla að skora á sveitarstjórn Árborgar og hvetja til þess að líta eftir skepnum á umráðasvæði sínu og segja vanrækslumönnum upp samningum. Hún eigi ekki að treysta Matvælastofnun sem sé máttlaus „gagnvart dreissugum dýraeigendum, sem þykjast vita best, hvað skepnur þeirra þola og stofnunin fylgir ekki eftir óskum um úrbætur. Á meðan kveljast skepnur sums staðar af hungri, þorsta og skjólleysi“.
 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV