Ógagnsætt kerfi búvörusamninga

27.02.2016 - 12:34
Ari Skúlason hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans.
 Mynd: RÚV
Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að nýju búvörusamningarnir séu ekki til hagsbóta fyrir neytendur og erfitt sé að átta sig á því hvernig þeir koma út fyrir einstaka bændur. Allt kerfið í kringum þá sé ógagnsætt og hentar illa nú á tímum.

Búvörusamningarnir voru undirritaðir 19. febrúar. Á meðan á viðræðunum stóð var mikið talað um afnám kvótakerfisins en margir bændur voru ekki sáttir við það. Þeirra sjónarmið virðast hafa orðið ofaná því breytingunum var frestað og verða greidd atkvæðu um þær árið 2019.  En eru samningarnir til hagsbóta fyrir neytendur?
 

„Nei það held ég ekki það er bara óbreytt ástand mikið til og það er ekki verið að liðka til fyrir innflutningi eða auka samnkeppni í greininni en má kannski frekar segja að það se verið að fresta því sem var talað um að auka tækifæri manna til að framleiða." 
 

Ari segir að auk þess sé erfitt að átta sig á hvernig samningurinn kemur út fyrir bændur. 

„Vandamálið við þennan samning er það að hann er mjög ógegnsær og allt þetta kerfi þannig að það er mjög erfitt að spá í það hvernig þetta kemur út gagnvart einstökum bændum." 
 

Búið er að banna framsal á kvóta en ríkissjóður mun kaupa kvóta af þeim sem vilja selja hann.  

„Það er fullt af spurningum sem á eftir að svara eins og t.d. hvað þýðir það að ríkið er skyldugt til að kaup allan þann kvóta sem er boðinn fram? Þannig að það er mjög margt þarna sem er svolítið ógegnsætt og kannski passar illa við þennan tíma sem við lifum þar sem að þurfa að liggja frammi helstu upplýsingar um það sem menn eru að fara."
 

Allar upphæðir í samningnum eru verðtryggðar út frá verðvísitölu fjárlaga.  

„Og svo er settur varnagli ef að vísitala neysluverðs breytist öðruvísis og væntanlega er fyrst verið að hugsa til hækkunar þá þarf að leiðrétta það líka. Þannig að það er fyrst leiðrétt gagnvart vísitölu fjárlaga og svo hugsanlega ári seinna leiðrétt aftur í tímann miðað við vísitölu neysluverðs þannig að þarna er um einskonar tvöfalda verðtryggingu að ræða  sem er mjög sérstakt."
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV