Oftar brotið á erlendu fólki í Eflingu

17.02.2016 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutfallslega oftar er brotið á félögum af erlendum uppruna í Eflingu en innlendum. Harpa Ólafsdóttir sviðsstjóri kjaramálasviðs Eflingar segir að skýringin kunni að vera sú að erlendir starfsmenn leiti frekar til stéttarfélagsins en að þeir innlendu leiti beint til launagreiðanda.

Hlunnfarnir í 376 málum

Félagar í Eflingu er 21 þúsund og starfa helst í ýmsum verkamannastörfum. Stærstu vinnustaðir innan Eflingar eru Reykjavíkurborg, ríkið, skipafélögin, Landspítalinn, Securitas, ISS, olíufélögin og Kópavogskaupstaður. Síðustu tvö ár hefur Efling fjallað um í kringum 400 mál félagsmanna á ári þar sem laun voru ekki rétt eða samningar brotnir samkvæmt upplýsingum frá kjaramálasviði Eflingar. Málin voru fleiri árið 2014 en í fyrra eða 430 en 376 á síðasta ári. 

Kemur ekki á óvart

Ekki var merkjanlegur munur eftir kynjum. Hins vegar var munur eftir atvinnugreinum og þjóðerni. 
„Í raun ekki þar sem við höfum séð þetta bara á þeim sem eru að koma til félagsins. Þetta var svona ákveðin tilfinning en tölurnar staðfesta það sem að við höfðum svona grun um.“ segir Harpa Ólafsdóttir sviðsstjóri kjaramálasviðs Eflingar.  
Fjórðungur félaga í Eflingu starfar í veitingageiranum eða ferðaþjónustu. Hins vegar er upp undir helmingur mála, þar sem brotið var á fólki og Efling hafði afskipti af, úr þessum greinum. Í fyrra var 45% allra mála Eflingar úr þessum greinum. 
Þriðjungur félaga í Eflingu er erlendur eða 35%. Hins vegar snertu 45% málanna, þar sem ekki voru greidd rétt laun eða samningar brotnir, fólk af erlendum uppruna. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Erlendir leita líklega frekar til félagsins en innlendir

Harpa segir að ungt fólk og fólk af erlendum uppruna þekki síður rétt sinn en aðrir: 
„Oft er það þannig að bara hinn almenni launþegi áttar sig á því að eitthvað er ekki rétt og þá fer hann yfir það með sínum atvinnurekanda og fær úrlausn mála. En hér er hópur sem þekkir síður rétt sinn og auk þess sem það er náttúrulega bara tungumálaörðugleikar og annað. Þeir þora þá hreinlega þá ekki að fara yfir stöðuna með sínum launagreiðanda og koma þá frekar til félagsins.“
Af málunum 376 í fyrra voru 162 þeirra vegna reksturs gisti- og veitingastaða, 48 komu úr byggingastarfsemi og mannvirkjagerð. Auk mála gisti- og veitingastaða eru líka talin með mál sem snerta flutninga og geymslu og mál sem tengjast leigustarfsemi en þar er líka að finna starfsmenn sem tengjast gististöðum og ferðaþjónustu. 

 

 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV