Öflugar sprengingar í Jakarta, minnst 4 látnir

14.01.2016 - 04:55
Minnst fjórir létu lífið þegar röð sprenginga skók miðborg Jakarta, höfuðborgar Indónesíu, fyrir skemmstu. Skothríð braust út í kjölfar sprenginganna og stóð um hríð, að sögn Jeremys Douglas, starfsmanns Sameinuðu þjóðanna, sem var staddur nærri vettvangi. Fréttaveitan AFP greinir frá því að þrír vegfarendur hafi týnt lífi í sprengingunum og einn lögreglumaður hafi verið skotinn.

Anton Charliyan, talsmaður indónesísku ríkislögreglunnar, segir að skothríðinni hafi linnt, en ódæðismennirnir séu enn ófundnir. Því óttist menn að þeir geti tekið til við að skjóta aftur þegar minnst varir.

Hermt er að alls hafi sex sprengjur sprungið við Sarinah-verslunarmiðstöðina, sem er nærri forsetahöllinni og skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í borginni. Fjöldi lúxushótela og sendiráða er einnig í hverfinu, þar á meðal sendiráð Pakistans og Tyrklands. Leiðum til og frá miðborginni hefur verið lokað. Borgarbúar hafa verið varaðir við því að vera á ferli og beðnir um að halda sig innandyra.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV