Ófært á áttunda degi sumars

28.04.2016 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Mokstur á Fjarðarheiði
Farþegar skemmtiferðaskips sátu fastir á Seyðisfirði í dag og komust ekki í skoðunarferðir vegna ófærðar á vegum. Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar var lokað til að ferðamenn færu sér ekki að voða í kröftugu vorhreti.

Íbúar á Norðausturlandi vonuðu að snjórinn sem byrjaði að falla úr lofti í gær yrði bara saklaust vorhret en sú varð ekki raunin. Moka þurfti götur á Egilsstöðum enda fór allt á kaf í snjó og vetrarlegt um að litast á áttunda degi sumars.

Í gærkvöld lokuðust fjallvegir og þurftu björgunarsveitir að hjálpa ferðalöngum, meðal annars á Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Vegagerðinni tókst að opna heiðina með blásara í morgun en þegar við förum yfir eftir hádegi er orðið mjög blint og við keyrum fram á bíla sem hafa verið skildir eftir. Á Seyðisfirði gnæfir skemmtiferðaskipið Magellan yfir bæinn. Með því komu í morgun 925 farþegar en öllum skoðunarferðum var aflýst vegna veðurs og ófærðar. Hjónin Annebella og Tom Nimmo frá Skotlandi létu hríðina ekki stöðva sig og brugðu sér á lystigöngu um bæinn eins og flestir sem misstu af skoðunarferðum. 

Veður fór aftur að versna og klukkan þrjú og var brugðið á það ráða að loka Fjarðarheiðinni aftur vegna þess hve skyggi þar var lélegt. En veðrið á að ganga niður í nótt.