Of seint að forða sér frá Suður-Flórída

10.09.2017 - 00:34
epa06195317 View of the buildings next to Collins Ave Avenue, in Miami Beach, Florida, US, 9 September 2017. Many areas are under mandatory evacuation orders as Irma approaches Florida.  EPA-EFE/Giorgio Viera
Götur og stræti Miami-borgar eru með tómlegasta móti í aðdraganda fárviðrisins sem skella mun á Flórídaskaga af fullum þunga á sunnudag, enda hefur fólk forðað sér frá borginni í stórhópum.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Fellibylurinn Irma færist stöðugt í aukanna á leið sinni frá Kúbu til Flórída og talið nokkuð víst að hann verði orðinn að fimmta stigs fellibyl þegar hann gengur á land. Ystu belti stormsins eru þegar farin að hamast á eyjunum undan suðurodda Flórídaskagans en reiknað er með að fárviðrið skelli á meginlandinu af fullum þunga um hádegisbil á sunnudag. Ríkisstjóri Flórída segir of seint að forða sér og hvetur fólk til að fara í neyðarskýli.

 Á sjöundu milljón íbúa Flórida var skipað að yfirgefa heimili sín vegna veðurofsans sem fylgir Irmu. Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, segir nú orðið um seinan að flýja, þeir Flórídabúar sem ekki hafi farið að rýmingartilmælum yfirvalda neyðist til að halda sig á heimaslóðum. Hann hvetur fólk sem enn er á hamfarasvæðinu til að leita skjóls í einhverju þeirra tæplega 400 neyðarskýla sem búið er að opna. Um 70.000 manns hafa leitað þar skjóls nú þegar, segir Scott, og þar sé pláss fyrir enn fleiri.

Irma stefnir beint á suðurodda Flórídaskagans, en slóð hennar liggur vestar en ætlað var og mun bylurinn líkast til fikra sig norður eftir vesturströnd skagans fremur en austurströndinni. Því var hundruðum þúsunda íbúa Tampaflóa sagt að forða sér fyrr í dag. Gangi þessar spár eftir sleppur milljónaborgin Miami mögulega við allramesta hvellinn en Tampa-borg, með sínar þrjár milljónir íbúa, gæti orðið þeim mun verr úti í veðurofsanum.