OECD: Margir ná ekki viðunandi færni

10.02.2016 - 10:48
Yfirstrikunarpennar og gleraugu ofan á skólabók.
 Mynd: Pixabay
Um 13 milljónir skólabarna í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD hafa ekki náð viðunandi færni í lestri, stærðfræði og náttúrufræði þegar þau hafa náð 15 ára aldri. Þetta kemur fram í skýrslu sem byggir á niðurstöðum PISA-könnunar sem gerð var í 64 löndum árið 2012.

Þar segir að meira en fjórði hver 15 ára nemandi í þátttökuríkjum 2012 hafi ekki náð viðunandi færni í þessum greinum og sums staðar hafi um helmingurinn ekki náð tilætluðum árangri í minnst einni þeirra. Meiri hætta sé á að þessir nemendur hætti skólagöngu.

Í skýrslu OECD segir að það skili ríkjum meiri ábata að beita sér fyrir bættum árangri en sem nemi kostnaðinum sem fari í slíkar aðgerðir. Þetta þurfi ekki að snúast velsæld og auð ríkja heldur stefnu í menntamálum og framkvæmd hennar. Alls staðar sé hægt að bæta námsárangur sé gripið til nauðsynlegra ráðstafana.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV