Öðrum lögreglumanni vikið frá störfum

14.01.2016 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Lögreglufulltrúanum, sem starfað hefur hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nú er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara, hefur verið vikið frá störfum tímabundið. Þetta segir í svari Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, við fyrirspurn fréttastofu. Hann er þar með annar lögreglumaðurinn úr fíkniefnadeildinni, sem vikið er frá störfum tímabundið vegna rannsóknar.

Héraðssaksóknari hóf rannsókn á störfum lögreglufulltrúans 12. janúar. Ekki hefur fengist uppgefið hvað það er nákvæmlega sem talið er athugavert við störf hans. Greint hefur verið frá því í fréttum að samstarfsfélagar hans hafi gert athugasemdir við störf hans og meðal annars hafi þótt ástæða til að skoða þau strax árið 2011. Þá hafi þáverandi yfirmaðurinn deildarinnar, Karl Steinar Valsson, skilað inn greinargerð um athugun sína á störfum hans og skilað inn til sinna yfirmanna. Engin svör hafa borist við fyrirspurnum fréttastofu um hvað það var kom fram í þessari greinargerð og/eða hvað var gert við hana.

Orðrétt segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir, í svari sínu við fyrirspurn fréttastofu:

Umræddum starfsmanni hefur verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir, sbr. 2. ml. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996. Mál hans verður rannsakað af nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. greinar laga nr. 70/1996, sem tekur afstöðu til þess hvort rétt sé að veita lausn að fullu eða láta viðkomandi taka aftur við embætti. Ákvörðun lögreglustjóra er kæranleg til innanríkisráðherra innan þriggja mánaða frá þeim tíma að telja þegar ákvörðun þessi var tilkynnt.

Þetta er í annað sinn sem lögreglumanni á fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er vikið frá störfum tímabundið. Mánudaginn 11. janúar, var lögreglumanninum, sem sat í gæsluvarðhaldi um tíma vegna gruns um óeðlileg samskipti við brotamenn, vikið frá störfum. Hans mál er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og situr maður í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við lögreglumanninn.