Obama heimsækir Kúbu á næstunni

18.02.2016 - 04:47
epa05061125 U.S President Barack Obama meets with a small group of veterans and Gold Star Mothers to discuss the Iran Nuclear deal in the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, September 10, 2015.  EPA/Olivier Douliery
 Mynd: EPA  -  ABACA PRESS POOL
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fer í opinbera heimsókn til Kúbu á næstu vikum. Þetta staðfestir starfsmaður Hvíta hússins. AFP fréttastofan segir að formleg tilkynning verði gefin út síðar í dag þar sem greint verður frá ferðalagi forsetans um Mið- og Suður-Ameríku, þar á meðal til Kúbu.

Heimsóknin á eftir að hafa mikil táknræn áhrif en stjórnmálasamband ríkjanna hefur nánast ekki verið neitt í áratugi. Þíða hefur verið á samskiptunum undanfarið og opnuðu ríkin sendiráð hvort í sínu landi fyrir nokkru. Heimsókn Obama verður fyrsta heimsókn sitjandi Bandaríkjaforseta til Kúbu í yfir 80 ár.

Ríkin undirrituðu samkomulag á þriðjudag um að daglegt farþegaflug verði á milli ríkjanna í fyrsta sinn í meira en hálfa öld.