Óánægja með laun og kjör

22.01.2013 - 21:55
Mynd með færslu
Mikil óánægja er meðal framhaldsskólakennara með kjör sín. Laun þeirra eru um 60.000 krónum lægri en hjá viðmiðunarstéttum. Formaður stéttarfélags þeirra segir að leiðréttingar verði krafist þegar næst verði samið eftir um ár.

Fjölmargar stéttir hafa stigið fram hér á landi síðustu misseri og talað opinskátt um lág laun, álag og slæmar vinnuaðstæður. Þar má meðal annars nefna fólk sem vinnur í heilbrigðiskerfinu en nú eru kennarar að bætast í hópinn. Svona lýsa framhaldsskólakennarar stöðunni, - mikið vinnuálag, streita, kennarar standa frammi fyrir yfirfullum námshópum. Á sama tíma hafi laun framhaldsskólakennara ekki hækkað til samræmis við sambærilegar stéttir.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að núna muni um 16% á dagvinnulaunum í framhaldsskólunum og þeirra hópa hjá ríkinu sem kennarar eru vanir að bera saman við, sem sé um 60.000 krónur á mánuði.

Kjarasamningar framhaldsskólakennara verða lausir eftir ár. Aðalheiður segir að þá verði stjórnvöld að bregðast við. Meginkrafan verði að leiðrétta laun í framhaldsskólunum þannig að þau verði á pari við laun hefðbundinna hópa hjá ríkinu sem kennarar beri sig saman við.