Óánægður kúnni reyndi að skjóta hársnyrtinn

11.02.2016 - 06:50
Mynd með færslu
 Mynd: NN  -  Facebook
Kona nokkur í San Diego í Kaliforníu var svo óánægð með handbragð hárskera sem snyrti hár hennar á miðvikudag, að hún reyndi að skjóta hann. Samkvæmt upplýsingum lögreglu í San Diego stormaði hin 29 ára gamla Adrian Blanche Swain út af rakarastofunni 619 Barber Shop í fússi og sneri aftur skömmu síðar með byssu að vopni. Mun hún hafa reynt í þrígang að hleypa af, en það vildi hárgreiðslumanninum til happs að byssan stóð á sér.

Talsmaður lögreglunnar segir byssuna hafa verið hlaðna, en í einhverju ólagi, og því fór betur en á horfðist. Hárskerinn náði að snúa byssukonuna niður, við annan mann, og halda henni uns lögreglan kom á staðinn. Hún hefur verið kærð fyrir morðtilraun. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV